Skoðun

Enn um afturköllun

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Fimm vel stæðir miðaldra karlmenn féllu af stalli fyrir skömmu í kjölfar frásagnar ungrar konu í hlaðvarpsþætti. Lýsingar á atvikum í heitum potti og á hótelherbergi í golfferð urðu til þess að fimmmenningarnir hafa misst spón úr aski sínum. Orðspor þeirra hefur dvínað, atvinnumissir orðið og ætla má að einkalíf þeirra hafi orðið fyrir hnjaski.

Þessar afleiðingar fyrir fimmmenningana hafa m.a. verið metnar af prófessor í félagsfræði og telur hann að þetta mál, eitt og sér, „sé eitt það mikilvægasta sem gerst hefur varðandi stöðu karla og kvenna síðustu áratugi á Íslandi“. Forseti ASÍ er ekki á ósvipuðum slóðum í vísis-grein frá 7. janúar sl. þar sem hún lýsir m.a. aðdáun á ungum konum sem „stíga fram og ræða af ótrúlegu hugrekki og hispursleysi um skipulagt ofbeldi karla gegn konum“ og að konur séu núna að „rísa upp gegn valdinu, breyta leikreglunum og neita að undirgangast þá gríðarlegu kúgun sem falist hefur í kynjakerfi samfélagsins“. Þegar einn fimmmenninganna lýsti því yfir að ekkert væri fjær sér „en að þröngva annarri manneskju til kynferðislegra athafna“ brást einn aðstandenda Öfga við með því að telja slíka neitun „bakslag“, líkt og einn kynja- og fjölbreytileikafræðingur hafði gert í einum Kastljósþætti RÚV.

Hvert er förinni heitið?

Áðurnefndir fimmmenningar eru taldir saklausir uns sekt er sönnuð, sbr. reglu þess efnis í stjórnarskránni. Eigi að síður kann þorri almennings að meta þá seka. Gefum okkur að það sé sannleikanum samkvæmt. Skiptir þá sá sannleikur meira máli en að komist sé að slíkri niðurstöðu á grundvelli takmarkaðra sönnunargagna og að útdeiling „refsikenndra viðurlaga“ sé hvorki í höndum dómstóla né annarra stofnana refsivörslukerfisins? Með öðrum orðum, eiga einhliða frásagnir í samfélagsmiðlum, studdar eftir atvikum gögnum sem aflað hefur verið einhliða, að duga til að sá sem borinn er sökum sé sviptur mannorði og atvinnutækifærum?

Í málum sem varða kynferðisbrot eru engar töfralausnir til. Sú lausn að láta dómstól götunnar um verkið er ekki heillavænleg. Þangað er samt förinni heitið.

Höfundur er lögfræðingur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.