Skoðun

Lausnir við hegðunar­vanda þarfnast endur­skoðunar

Helgi S. Karlsson skrifar

Mikið hefur verið rætt um hegðunarvanda í grunnskólum að undanförnu og skort á skilvirkum úrræðum vegna hans. Hegðunarvandi getur þýtt ýmislegt, svo sem ítrekaða truflun í tíma, erfiðleika í samskiptum við aðra nemendur, ítrekuð brot á reglum skólalóðar og ýmislegt fleira. Hagnýt atferlisgreining er vísindaleg hugmynda- og aðferðafræði sem er undirstaða nokkurra aðferða og ýmsir skólar beita til þess að hvetja nemendur til jákvæðrar hegðunar. Aðferðirnar fela meðal annars í sér að greina hegðunar- og námshvatavanda, ásamt því að meta hvað það er sem veldur þeim og viðheldur. Þegar ástæðan kemur í ljós er hægt að vinna með hana á sama tíma og ungmenninu er boðið upp á jákvæðar leiðir til að mæta þörfum sínum.

Sýnt hefur verið fram á, að þegar aðferðum sem byggja á hagnýtri atferlisgreiningu er beitt á réttan hátt, geti þær verið góð lausn á hegðunarvanda [grunnskólabarna]. Vandinn er sá, að hefðbundin útfærsla þeirra er flókin, tímafrek og barn síns tíma. Kominn er tími til að laga aðferðirnar að snjallvæðingu samfélagsins og hvet ég þá sem leita lausna við hegðunarvanda til að kynna sér nýjar og skilvirkari útfærslur á sannreyndum aðferðum.

Höfundur er sálfræðingur, kennari og framkvæmdastjóri Beanfee ehf., nýsköpunarfyrirtækis á sviði hegðunarþjálfunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×