Handbolti

Leikmaður í einangrun, tveir í sóttkví og smit á skrifstofu HSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Kórónuveiran truflar undirbúning íslenska landsliðsins eins og fleiri liða nú þegar styttist í að EM hefjist.
Kórónuveiran truflar undirbúning íslenska landsliðsins eins og fleiri liða nú þegar styttist í að EM hefjist. vísir/Hulda margrét

Íslenska karlalandsliðið í handbolta byrjar í dag undirbúning sinn fyrir Evrópumótið án þriggja leikmanna, vegna kórónuveirufaraldursins.

Vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirusmita verða strákarnir okkar saman í búblu á hóteli hér á landi, á milli æfinga, þar til að þeir halda af stað til Búdapest þar sem fyrsti leikur á EM er gegn Portúgal 14. janúar.

Þrír leikmenn þurfa hins vegar að bíða með að hitta hina sautján á Grand Hótel. Einn er í einangrun vegna kórónuveirusmits og tveir í sóttkví. Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, við handbolti.is.

Vonir standa til þess að þeir tveir sem eru í sóttkví losni á morgun en sá sem er í einangrun lýkur henni síðar í þessari viku.

Leikmenn munu fara í PCR-próf um það bil annan hvern dag í janúar, þar til að þeir ljúka leik á EM. 

Sýni sem tekin voru í gær úr þeim sautján leikmönnum sem ekki eru í sóttkví eða einangrun, reyndust öll neikvæð, að sögn Róberts. Þeir gátu því komið saman og hefja æfingar í dag, degi síðar en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Smit á skrifstofu HSÍ

Fram kemur á handbolti.is að Róbert og fleiri starfsmenn HSÍ hafi einnig orðið fyrir barðinu á veirunni og verði því í einangrun fram á næstu helgi.

Enn stendur þó til að leika tvo vináttulandsleiki gegn Litháen, sem einnig undirbýr sig fyrir EM, á Ásvöllum næsta föstudag og sunnudag.


Tengdar fréttir

Gætu nýtt undrabarn gegn Íslandi á EM vegna krísuástands

Þrír markahæstu leikmenn Portúgals í sigrinum gegn Íslandi á HM í handbolta fyrir tæpu ári síðan eru meiddir eða smitaðir af Covid-19 nú þegar hálfur mánuður er þar til að liðin mætast í fyrsta leik á EM í Búdapest.

Tveir smitaðir í EM-hópi Íslands

Nú þegar örfáir dagar eru í að íslenski landsliðshópurinn komi saman til æfinga fyrir Evrópumótið í handbolta í janúar er ljóst að tveir leikmenn liðsins eru smitaðir af kórónuveirunni.

Markmiðið háleitt en allt mögulegt á EM

„Mér finnst allir möguleikar vera í stöðunni,“ segir Guðmundur Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta, sem telur liðið feta sig hægt og rólega í átt að toppi handboltaheimsins.

EM-hópur Íslands í Búdapest

Nú er orðið ljóst hvaða leikmenn fara fyrir Íslands hönd á Evrópumótið í handbolta karla í janúar, þar sem Ísland mun spila sína leiki í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×