Vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirusmita verða strákarnir okkar saman í búblu á hóteli hér á landi, á milli æfinga, þar til að þeir halda af stað til Búdapest þar sem fyrsti leikur á EM er gegn Portúgal 14. janúar.
Þrír leikmenn þurfa hins vegar að bíða með að hitta hina sautján á Grand Hótel. Einn er í einangrun vegna kórónuveirusmits og tveir í sóttkví. Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, við handbolti.is.
Vonir standa til þess að þeir tveir sem eru í sóttkví losni á morgun en sá sem er í einangrun lýkur henni síðar í þessari viku.
Leikmenn munu fara í PCR-próf um það bil annan hvern dag í janúar, þar til að þeir ljúka leik á EM.
Sýni sem tekin voru í gær úr þeim sautján leikmönnum sem ekki eru í sóttkví eða einangrun, reyndust öll neikvæð, að sögn Róberts. Þeir gátu því komið saman og hefja æfingar í dag, degi síðar en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Smit á skrifstofu HSÍ
Fram kemur á handbolti.is að Róbert og fleiri starfsmenn HSÍ hafi einnig orðið fyrir barðinu á veirunni og verði því í einangrun fram á næstu helgi.
Enn stendur þó til að leika tvo vináttulandsleiki gegn Litháen, sem einnig undirbýr sig fyrir EM, á Ásvöllum næsta föstudag og sunnudag.