Körfubolti

Fimmtíu stig dugðu til sigurs í framlengingu

Sindri Sverrisson skrifar
Jaylen Brown keyrir að körfu Orlando Magic í 50 stiga leik sínum í gærkvöld.
Jaylen Brown keyrir að körfu Orlando Magic í 50 stiga leik sínum í gærkvöld. AP/Mary Schwalm

Boston Celtics lentu í miklu basli gegn einu slakasta liði NBA-deildarinnar í körfubolta í gærkvöld, Orlando Magic, en þökk sé mögnuðum Jaylen Brown tókst Boston að merja sigur í framlengdum leik, 116-111.

Brown skoraði alls 50 stig í leiknum og bætti þar með stigamet sitt í stökum leik. Hann var sérstaklega góður í fjórða leikhluta þegar Boston vann upp 14 stiga forystu Orlando á rétt um fjórum mínútum, og skoraði þá 21 stig í leikhlutanum.

Orlando, sem aðeins hefur unnið sjö leiki á tímabilinu en nú tapað 30, hafði komist í 96-82 en Boston jafnaði metin í 98-98 þegar 38 sekúndur voru eftir. Boston komst svo raunar yfir með enn einni körfunni frá Brown en Orlando tókst að jafna og knýja fram framlengingu.

Brown setti svo niður sinn fimmta þrist í byrjun framlengingarinnar og sá að lokum til þess að fjarvera Jayson Tatum, sem missti af fjórða leiknum í röð vegna Covid-19 mála, kæmi ekki að sök. Cole Anthony, aðalstigaskorari Orlando, missti einnig af leiknum, vegna meiðsla.

  • Úrslitin í gær:
  • Toronto 120-105 New York
  • Boston 116-111 Orlando
  • Cleveland 108-104 Indiana
  • Sacramento 115-113 Miami
  • Charlotte 99-133 Phoenix
  • Oklahoma 86-95 Dallas
  • LA Lakers 108-103 Minnesota
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×