Handbolti

Bjarki Már og Ómar Ingi tilnefndir sem handboltamenn ársins í Þýskalandi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon
Ómar Ingi Magnússon MummiLú

Tveir íslenskir handboltamenn eru á 10 manna lista yfir þá leikmenn sem koma til greina sem handboltamenn ársins 2021 í Þýskalandi.

Þeir Ómar Ingi Magnússon og Bjarki Már Elísson, sem báðir verða með íslenska landsliðinu á EM í janúar, eru meðal þeirra tíu sem koma til greina í vali sem handboltavefurinn Handball World og þýska tímaritið Bock auf Handball standa fyrir.

Ómar Ingi, sem var á dögunum valinn íþróttamaður ársins á Íslandi, er eini leikmaður toppliðs Magdeburg sem er tilnefndur og sömuleiðis er Bjarki Már eini leikmaður Lemgo sem er tilnefndur. Með þeim á lista yfir tíu bestu leikmenn Bundesligunnar eru Sander Sagosen og Niklas Landin (Kiel), Johannes Golla og Jim Gottfredsson (Flensburg), Hans Lindberg (Fuchse Berlin), Dominik Mappes (Huttenberg), Marcel Schiller (Göppingen) og Niklas Weller (Hamburg)

Alfreð Gíslason á sömuleiðis möguleika á verðlaunum en Alfreð starfar nú sem þjálfari þýska landsliðsins og er tilnefndur sem persónuleiki ársins í þýskum handbolta ásamt þeim Bob Hanning, Daniel, Schlipplack, Stephan Swat og Christoph Theuerkauf.

Hægt er að taka þátt í kosningu á netinu með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×