Körfubolti

Curry dró vagninn í jólauppgjöri bestu liða NBA-deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stephen Curry var stigahæsti maður vallarins er Golden State Warriors og Phoenix Suns áttust við í nótt.
Stephen Curry var stigahæsti maður vallarins er Golden State Warriors og Phoenix Suns áttust við í nótt. Ezra Shaw/Getty Images

Það var nóg um dýrðir í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en fimm jólaleikir voru spilaðir. Stephen Curry skoraði 33 stig er Golden State Warriors vann níu stiga sigur gegn Phoenix Suns, 116-107, og lyfti sér þar með aftur á toppinn í Vesturdeildinni.

Gestirnir í Golden State byrjuðu betur og leiddu með sex stigum eftir fyrsta leikhluta, en heimamenn náðu forystunni fyrir hálfleik og fóru með fjögurra stiga forskot inn í hléið, 62-58.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta og gestirnir jöfnuðu áður en komið var að lokaleikhlutanum. Þar reyndust gestirnir í Golden State sterkari og unnu að lokum sterkan níu stiga sigur, 116-107.

Stephen Curry var stigahæsti maður vallarins með 33 stig, en hann tók einnig fjögur fráköst og gaf sex stoðsendingar. Í liði heimamanna var Chris Paul atkvæðamestur með 21 stig, sex fráköst og átta stoðsendingar.

Þá snéru leikmenn Milwaukee Bucks taflinu heldur betur við er liðið tók á móti Boston Celtics í nótt. Gestirnir frá Boston voru yfir í hálfleik, 62-47, og náðu mest 19 stiga forskoti í síðari hálfleiknum.

Það var þá helst frammistaða Giannis Antetokounmpo í síðari hálfleiknum sem sá til þess að endurkoman varð að veruleika, en í seinni tveim fjórðungum leiksins skoraði hann 29 stig og liðið vann að lokum fjögurra stiga sigur, 117-113.

Öll úrslit næturinnar

Atlanta Hawks 87-101 New York Knicks

Boston Celtics 113-117 Milwaukee Bucks

Golden State Warriors 116-107 Phoenix Suns

Brooklyn Nets 122-115 Los Angeles Lakers

Dallas Mavericks 116-120 Utah Jazz

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×