„Ég er ekkert að velta fyrir mér hvað kemur eftir mótið,“ sagði Guðmundur í viðtali við Guðjón Guðmundsson í gær, eftir að hafa tilkynnt hvaða leikmenn hann tæki með sér á EM í byrjun næsta árs.
Guðmundur tók á ný við landsliðinu árið 2018, í þriðja sinn á ferlinum og gerði þá samning við HSÍ sem gilti fram yfir HM í Egyptalandi sem fram fór í byrjun þessa árs. Sá samningur var hins vegar framlengdur sumarið 2020 og gildir því fram yfir EM.
Guðmundur fékk leyfi HSÍ til að taka við þýska liðinu Melsungen í febrúar 2020 og stýra því samhliða því að þjálfa íslenska landsliðið. Hann var hins vegar látinn fara frá Melsungen í haust, rétt áður en tilkynnt var að hann tæki við danska liðinu Federicia næsta sumar.
Ísland er í riðli með Portúgal, Ungverjalandi og Hollandi á EM og komast aðeins tvö efstu liðin í riðlinum áfram í milliriðla.
„Búinn að leggja í þetta mikla vinnu og hef mikla trú á verkefninu“
Guðmundur setti sér strax árið 2018 markmið um að koma Íslandi í hóp átta bestu landsliða heims en liðið endaði í 20. sæti á HM í byrjun þessa árs. Ef að illa fer á EM, ætlar hann þá samt að halda verkefni sínu áfram?
„Ég hef ekkert verið að velta því fyrir mér. Ég bara einbeiti mér að þessu verkefni og geri það eins vel og ég get. Ég er búinn að leggja í þetta mikla vinnu og hef mikla trú á verkefninu, og ætla að einbeita mér að því eingöngu,“ sagði Guðmundur en brot úr viðtali við hann má sjá hér að ofan.