Sport

Íslandsmethafinn fer í skóla í Texas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Rut Rúnarsdóttir fagnar fjórða sætinu á HM ungmenna í sumar.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir fagnar fjórða sætinu á HM ungmenna í sumar. Instagram/@elisabet0

Texas State University tilkynnti í dag að frjálsíþróttalið skólans hafi fengið flottan liðstyrk frá Íslandi því Elísabet Rut Rúnarsdóttir hefur ákveðið að hefja nám í skólanum.

Elísabet Rut er nítján ára sleggjukastari úr ÍR sem náði fjórða sætinu á heimsmeistaramóti undir 20 ára sem fór fram í Nairobi í Kenía í sumar.

Elísabet Rut bætti einnig Íslandsmetið á árinu þegar hún kastaði sleggjunni 64,39 metra. Það var ekki aðeins Íslandsmet fullorðinna heldur einnig met hjá nítján ára yngri sem og tuttugu og tveggja ára og yngri. Hún á einnig metið hjá sautján ára og yngri.

Elísabet Rut eignaðist Íslandsmetið fullorðinna fyrst þegar hún kastaði 62,16 metra í maí 2019 þá enn bara sextán ára gömul. Hún missti það aftur til Vigdísar Jónsdóttur árið 2020 en endurheimti það síðan í apríl á þessu ári.

Það er ljóst að Texas State skólinn verður með öflugt kastlið hjá stelpunum á næsta tímabilið því á dögunum var tilkynnt um komu þriggja annara efnilegra kastara. Það eru systurnar Alyssa og Bryanna Wilson en einnig kringlukastarinn Utitofon Sam frá Nígeríu.

Texas State University er í háskólabænum San Marcos í Texas-fylki sem er 65 þúsund manna bær á milli stórborganna Austin og San Antonio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×