Körfubolti

Íslandsmeistararnir rétt skriðu inn í undanúrslitin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þórsarar frá Þorlákshöfn tryggðu sér sæti í undanúrslitum VÍS bikars karla með naumum sigri á ÍR.
Þórsarar frá Þorlákshöfn tryggðu sér sæti í undanúrslitum VÍS bikars karla með naumum sigri á ÍR. Vísir/Bára

Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn unnu afar nauman eins stigs sigur er liðið heimsótti ÍR í átta liða úrslitum VÍs bikars karla í körfubolta í kvöld, 77-79.

Heimamenn í ÍR mættu grimmir til leiks og höfðu yfirhöndina í fyrsta leikhluta, en að honum loknum höfðu þeir átta stiga forystu í stöðunni 26-18.

Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og liðin skiptust á að skora. Bæði lið settu niður tuttugu stig í leikhlutanum og staðan því 46-38 í hálfleik, ÍR-ingum í vil.

Þórsarar gerðu vel í þriðja leikhluta og söxuðu vel á forskot heimamanna, en þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan 61-60 og því aðeins eitt stig sem skildi liðin að.

ÍR-ingar leiddu fyrri hluta fjórða leikhluta, en það var ekki fyrr en að tæpar fjórar mínútur voru eftir að Þórsarar tóku loksins forystuna, og liðin skiptust á að leiða það sem eftir var.

Heimamenn komust í 77-76 þegar um ein og hálf mínúta var til leiksloka, en gestirnir komu sér yfir á ný þegar 27 sekúndur voru á klukkunni. ÍR-ingar misnotuðu sína seinustu sókn og þurftu því að brjóta og Þórsarar settu annað vítið niður í þann mund sem klukkann gall.

Niðurstaðan varð því tveggja stiga sigur Þórsara, 77-79, og liðið á leið í undanúrslit VÍS bikars karla. Luciano Nicolas Massarelli var stigahæstur í liði Þórs með 19 stig, en hann tók einnig þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Í liði ÍR var Igor Maric atkvæðamestur með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×