Handbolti

Erlingur: „Fullt af ungum strákum hjá okkur sem eru að nýta tækifærin“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sigur sinna manna í kvöld.
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sigur sinna manna í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var eðlilega ánægður með sigur sinna manna í Olís-deild karla í handbolta gegn Víkingum í kvöld. Lokatölur urðu 27-23, en Eyjamenn voru án sigurs í seinustu tveimur leikjum.

„Mér líður bara eins og alltaf eftir sigurleiki, það er sigurtilfinning og það er góð tilfinning,“ sagði Erlingur að leik loknum.

Eyjamenn voru án sigurs í seinustu tveimur leikjum fyrir leik kvöldsins og Erlingur segir það gott að sjá sína menn snúa genginu við.

„Það var bara mikilvægt að ná í tvö stig. En það sem ég er kannski ánægðastur með miðað við þá leiki er að við fáum á okkur 23 mörk í dag á móti 36 og 39. Það er það sem við þurftum að bæta og við gerðum það vel.“

„Í seinni hálfleik skoruðu þeir aðeins tíu á okkur og ég er ánægðastur með það.“

Leikurinn var nokkuð jafn lengi vel, en Eyjamenn voru með góða stjórn á leiknum seinasta stundarfjórðunginn og sigurinn var í raun aldrei í hættu.

„Við náðum að hreyfa svolítið hópinn sem virkaði núna sem betur fer. Við vorum með ferska fætur á lokakaflanum og eins og ég segi þá virkaði það í dag.“

Eins og Erlingur nefndi var hann að nota hópinn vel og það gaf ungum leikmönnum Eyjamanna tækifæri til að sýna sig og sanna. Hann segist vera ánægður með þeirra framlag.

„Þeir komu bara virkilega vel inn í þetta. Fullt af ungum strákum hjá okkur sem eru að nýta tækifærin og gefa af sér þannig að þeir stóðu sig bara með sóma í dag.“

„Það er líka okkar markmið að koma með unga leikmenn á hverju ári og við höfum verið duglegir við það seinasta áratuginn,“ sagði Erlingur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×