Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Víkingur 27-23 | Eyjamenn aftur á sigurbraut

Einar Kárason skrifar
Kári Kristján var flottur í kvöld.
Kári Kristján var flottur í kvöld. vísir/pjetur

Eftir stórt tap gegn Gróttu og jafntefli við HK kom ÍBV sér aftur á sigurbraut með fjögurra marka sigri gegn nýliðum Víkings, 27-23. Eyjamenn þurftu á stigunum tveimur að halda til að halda í við topplið deildarinnar. Gestirnir úr Fossvoginum höfðu aðeins sótt tvö stig úr 11 leikjum fyrir leikinn í Vestmannaeyjum, en einu stig þeirra komu gegn botnliðinu í þar síðustu umferð.

Víkingar hófu leikinn af krafti og náðu fjögurra marka forustu eftir tæplega stundarfjórðungs leik. Þá fóru Eyjamenn að taka við sér og náðu að jafna leikinn þegar rúmlega fimm mínútur eftir lifðu af fyrri hálfleik. ÍBV skoraði svo næsta mark og komst þannig yfir í fyrsta skipti í leiknum, 13-12. Liðin skoruðu svo sitthvort markið áður en gengið var til búningsherbergja í hálfleik. 

Síðari hálfleikurinn var gríðarlega spennandi og skiptust liðin á að skora, Eyjamenn með yfirhöndina en Víkingur aldrei langt undan. Það var ekki fyrr en undir leiks að draga fór af gestunum og ÍBV náði fjögurra marka forustu þegar lítið var eftir. Víkingar minnkuðu muninn á lokamínútunni en heimamenn gerðu lokamark leiksins og endaði leikurinn því með fjögurra marka sigri ÍBV, 27-23.

Af hverju vann ÍBV?

Þrátt fyrir hetjulega baráttu nýliðanna varð lokakafli leiksins ekki eins spennandi og hann hefði getað orðið. Eyjamenn náðu inn nokkrum mörkum í röð og spiluðu síðustu mínútur leiksins fagmannlega og héldu spennustiginu niðri á þeim tíma. 

Hverjir stóðu upp úr?

Gauti Gunnarsson og Kári Kristján Kristjánsson voru markahæstir í liði ÍBV með sex mörk. Kári tók sig til og sinnti varnarhlutverki sínu í leiknum vel ásamt Róberti Sigurðarsyni. Björn Viðar Björnsson varði fimmtán bolta í markinu, þar af tvö víti.

Jóhannes Berg Andrason, ung skytta Víkinga, átti frábæran leik í Eyjum en hann skoraði þrettán mörk af tuttugu og sex mörkum gestanna, tíu mörkum meira en næsti maður. Jovan Kukobat átti einnig fínan leik í marki Víkinga en hann varði samtals fjórtán skot. 

Hvað gekk illa?

Nokkrir lykilmenn Eyjamanna náðu sér ekki almennilega á strik í dag en ljósti punkturinn er sá að ungu mennirnir í liði ÍBV stóðu vaktina með prýði. 

Þrátt fyrir að markaskorun gestanna hafi dreifst vel á hópinn er ekki hægt að horfa framhjá því að af þeim tíu mörkum sem hinn átján ára Jóhannes Berg skoraði ekki voru fimm leikmenn með eitt mark, einn með tvö og einn með þrjú mörk skoruð. 

Hvað gerist næst?

ÍBV fær Stjörnuna í heimsókn næstkomandi föstudag en Víkingar fá KA heim í lokaleiknum fyrir ,,jóla"frí. 

Gulli: Búnir að binda saman fjóra góða leiki

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga.Víkingur

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfar Víkinga, telur sitt lið hafa verið í dauðafæri á að sækja stigin tvo í Eyjum. ,,Það er svekkjandi hvernig við enduðum þetta. Ég get ekki kvartað yfir framlagi frá leikmönnum. Þei voru virkilega duglegir þetta var ágætis handboltaleikur."

,,Við missum Hamza (Kablouti) út í síðasta leik og Styrmir (Sigurðarson) fékk í nárann í byrjun og tók ekkert þátt í leiknum. Það eru svo tveir aðrir meiddir þannig að ábyrgðin lá á fáum herðum í dag. Jóhannes Berg er með þrettán mörk í dag, algjörlega frábær. Hann átti örugglega fjögur til fimm víti inni. Það væri fróðlegt ef Seinni Bylgjan myndi klippa það til og skoða."

,,Þetta var stöngin út og hefði getað farið á hvorn veginn sem er."

Vítin dýr

Gestirnir fóru illa með nokkur fín færi í leiknum og þar á meðal þrjú fyrstu vítaköst sín í leiknum. Gulli var sammála því að þetta væri dýrt á móti liði eins og ÍBV, í Vestmannaeyjum.

 ,,Fyrstu þrjú vítin. Þetta er dýrt, en það er ekki endilega það (sem varð liðinu að falli). Augnablikið var með þeim síðustu mínútur leiksins. Svekkjandi, en að sama skapi erum við búnir að binda saman fjóra mjög frambærilega leiki hjá okkur. Grótta, HK, Stjarnan og svo þessi leikur í dag. Allt leikir þar sem við gætum hafa tekið tvö stig."

,,Nú er það bara næsti leikur á móti KA og við förum vonandi sælir í jólafrí."

Ánægður með framlag sinna manna

,,Þetta er átján ára gutti með þrettán af tuttugu og þremur mörkum. Þetta var stórbrotinn leikur hjá honum í dag," sagði Gulli spurður út í Jóhannes Berg. ,,Það lá svolítið á honum að slútta sóknunum en að sama skapi var framlagið hjá strákunum til staðar og ég get ekki annað en verið ánægður með þá í þessum leikjum sem við höfum spilað undanfarið."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira