Viðskipti innlent

Fékk ekki að miða tekju­tapið í ræktinni við fyrstu vikuna í far­aldrinum

Atli Ísleifsson skrifar
Yfirskattanefnd taldi kæranda þó ekki hafa sýnt fram á að samanburður við tekjuöflun á svo stuttu tímabili gæfi betri mynd af tekjufalli félagsins.
Yfirskattanefnd taldi kæranda þó ekki hafa sýnt fram á að samanburður við tekjuöflun á svo stuttu tímabili gæfi betri mynd af tekjufalli félagsins. Vísir/Vilhelm

Yfirskattanefnd hefur hafnað kröfu rekstraraðila heilsuræktarstöðvar, sem loka þurfti í upphafi heimsfaraldursins, um að við mat tekjufallsstyrkjum skyldi miða við tekjur félagsins við einnar viku tímabil, í stað mánaðanna fyrir lokun líkt og almennt var miðað við.

Í úrskurði yfirskattanefndar segir að kærandinn hafi hafið reksturinn síðla árs 2019, en þurfti að loka stöðinni um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Maðurinn sótti um tekjufallsstyrki af því tilefni og taldi að við mat á tekjufalli bæri að miða við tekjur félagsins á tímabilinu 26. febrúar til 5. mars 2020.

Ríkiskattstjóri hafði áður hafnað kröfum mannsins og ákvað hann þá að kæra málið til yfirskattanefndar.

Yfirskattanefnd taldi kæranda þó ekki hafa sýnt fram á að samanburður við tekjuöflun á svo stuttu tímabili gæfi betri mynd af tekjufalli félagsins en samanburður við tímabilið frá því að starfsemin hófst 1. nóvember 2019 og til loka mars 2020.

Í úrskurði kom fram að almennt yrði ekki talið að sú aðstaða, að tíma gæti tekið að koma rekstri og tekjuöflun nýrra fyrirtækja á skrið, gæti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi laga. Því hafi kröfum mannsins verið hafnað.

Sjö mánuðir

Í lögum um tekjufallsstyrki kom fram að skilyrði fyrir greiðslu slíkra styrkja sé að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið að minnsta kosti 40 prósent lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og að tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 hafi átt að bera tekjur hans saman við tekjur fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. 

„Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar ástæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins,“ segir í úrskurðinum, en mat nefndin það sem svo að rök kæranda ættu ekki við.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×