Viðskipti innlent

Blása í lúðra vegna at­vinnu­leysis á Suður­nesjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Ljósanótt í Reykjanesbæ í sumar.
Frá Ljósanótt í Reykjanesbæ í sumar. Vísir/MHH

Vinnumálastofnun hvetur atvinnuleitendur á Suðurnesjum til að leita til sín. Skráð atvinnuleysi á svæðinu mælist nú yfir 6,5 prósent. Þróunin gefi tilefni til markvissra aðgerða af hálfu Vinnumálastofnunar í samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar og um vinnumarkaðsaðgerðir.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vinnumálastofnunar. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar mældist atvinnuleysi í landinu öllu meðal fólks á aldrinum 16 til 74 ára 3,2 prósent í september. ASÍ spáir að atvinnuleysi fyrir árið 2025 verði 4,5 prósent. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er því miklu hærra en sem nemur meðaltali yfir landið.

Atvinnuleitendur, sem skráðir eru hjá Vinnumálastofnun, eru hvattir til að hafa samband við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum. 

„Þar veita ráðgjafar einstaklingsmiðaða þjónustu, sem felur í sér ráðgjöf, stuðning við atvinnuleit, hæfnimat og kynning á úrræðum sem standa til boða,“ segir í tilkynningu Vinnumálastofnunar.

Atvinnurekendum á Suðurnesjum er einnig boðin þjónusta og ráðgjöf Vinnumálastofnunar. 

„Stofnunin veitir upplýsingar um vinnumarkaðsúrræði, ráðningarstyrki og aðstoðar fyrirtæki við að finna hæft starfsfólk. Samstarf atvinnurekenda og Vinnumálastofnunar er lykilatriði til að efla, virkja og styðja við atvinnuleitendur á svæðinu. Vinnumálastofnun mun áfram fylgjast náið með þróun mála og grípa til ráðstafana sem miða að því að styðja við atvinnulíf og atvinnuleitendur á Suðurnesjum.“

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað verulega á Suðurnesjum undanfarin ár og er hlutfall þeirra töluvert hærra en víðast hvar á landinu. Í samantekt Þjóðskrár í upphafi árs kom fram að 32,2 prósent íbúa á Suðurnesjum eru erlendis ríkisborgarar. Fjöldi erlendra ríkisborgara með tilliti til einstakra sveitarfélaga er mestur í Reykjanesbæ að frátalinni Reykjavík þar sem hlutfall þeirra var 24% í lok árs 2024.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×