Körfubolti

Naumur sigur Valsara gegn botnliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristófer Acox átti flottan leik fyrir Valsliðið í kvöld.
Kristófer Acox átti flottan leik fyrir Valsliðið í kvöld. vísir/bára

Valsmenn unnu nauman fjögurra stiga sigur gegn botnliði Þórs frá Akureyri er liðin mættust fyrir norðan í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 75-79, en með sigrinum lyftu Valsmenn sér upp í annað sæti deildarinnar, í það minnsta tímabundið.

Mikið jafnræði var með liðunum allt frá upphafi leiks, en að loknum fyrsta leikhluta höfðu heimamenn í Þór þriggja stiga forskot, 25-22.

Sömu sögu er að segja af öðrum leikhluta, en hvorugu liðinu tókst að hrista andstæðinga sína af sér. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn eitt stig, 41-40, heimamönnum í vil.

Seinni hálfleikur bauð upp á meira af því sama. Enn voru liðin stál í stál og héldust áfram í hendur. Gestirnir í Val náðu þó að fara inn í lokaleikhlutann með forystu, en hún var ekki nema eitt stig, staðan 56-57.

Ekki tóks heimamönnum að snúa leiknum aftur sér í hag í lokaleikhlutanum og því voru það gestirnir sem unnu að lokum fjögurra stiga sigur, 75-79. Stigahæstur í liði Valsmanna var Pablo Cesar Bertone með 26 stig, en í liði heimamanna var það Dúi Þór Jónsson sem var atkvæðamestum með 21 stig.

Þá verðum við einnig að nefna Kristófer Acox í liði Vals en hann skoraði 21 stig og tók ásamt því 20 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×