Körfubolti

LeBron ekki með veiruna og spilar gegn Clippers

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James verður með í nótt.
LeBron James verður með í nótt. Nic Antaya/Getty Images

LeBron James, ein skærasta stjarna NBA-deildarinnar, er ekki með Covid-19 og mun því taka þátt í baráttunni um Los Angeles-borg í nótt er Lakers mætir Clippers.

LeBron var fjarri góðu gamni er Lakers kom til baka og jarðaði Sacramento Kings í síðasta leik sínum í NBA-deildinni í körfubolta. Ástæðan var sú að hinn 36 ára gamli James hafði greinst með Covid-19.

Nú hefur komið í ljós að um niðurstaðan var ekki rétt og leikmaðurinn sé í raun ekki með veiruna. Ef leikmenn í NBA greinast með Covid-19 þurfa þrif að taka tvö próf á næstu 24 tímum. 

Bæði prófin voru neikvæði hjá James og þar með er hann orðinn leikfær á nýjan leik og getur tekið þátt í baráttunni um borg englanna sem fram fer í nótt.

Leikurinn gegn Sacramento var 12. leikurinn sem LeBron missir af til þessa á leiktíðinni. Hann hefur verið að glíma við meiðsli ásamt því að vera í leikbanni í einum leik.

Lakers hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni en eru þó fyrir ofan nágranna sína í Clippers eftir að hafa leikið leik meira. Lakers eru í 6. sæti með 12 sigra og 11 töp á meðan Clippers eru sæti neðar með 11 sigra og jafn mörg töp.

Það er því mikið undir er boltinn fer á loft í Staples Center í Los Angeles í nótt.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×