Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Focsani 27-26| Haukar dottnir út í Evrópubikarnum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Haukar tóku á móti Focsani í 32-liða úrslitum í Evrópubikars karla í handbolta í dag. Fyrri leikur liðanna var síðustu helgi þar sem Haukar töpuðu með tveimur mörkum 28-26. Haukar unnu eins marks sigur 27-26 en ekki dugði það til og þeir því dottnir út.

Focsani mættu öflugir til leiks hér í dag og tóku strax forystu á fyrstu mínútum leiksins. Haukarnir voru ágæti varnarlega en sóknarleikurinn hjá þeim var óagaður og virtist vera mikið stress í þeim.

Haukarnir voru ekki með alla sína menn heila og ekki bætti það úr skák að Geir Guðmundsson fékk höfuðhögg þegar 10 mínútur voru liðnar af leiknum og skarð var því sannarlega fyrir skildi. Ekki máttu Haukarnir við þessu þar sem var orðið ansi þunnskipað á hægri vængnum. 

Haukarnir áttu einstaklega erfitt uppdráttar bæði sóknarlega sem og varnarlega og leiddu því gestirnir með 4 mörkum þegar flautað var til hálfleiks, 14-10.

Focsani héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og voru leiddu bróðurpart seinni hálfleik með 4-5 mörkum. Sóknarleikur Hauka lagaðist ekki í seinni hálfleik og var þetta orðið ansi erfitt hjá þeim á köflum

Þegar 10 mínútur voru til leiks loka kveiknaði á Haukunum. Það var mun meiri stemmning yfir liðinu og virtist stressið farið úr þeim. Það var hinsvegar orðið of seint og þrátt fyrir að vinna með einu marki 27-26 dugði það ekki til og Haukarnir því dottnir út. 

Afhverju unnu Haukar?

Þrátt fyrir að hafa unnið þennan leik duttu þeir út. Að þeir hafi hrokkið í gang á síðustu mínútum leiksins er ástæða sigursins. Annars voru þeir ekki upp á sitt besta í 45 mínútur. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Haukum var það Halldór Ingi Jónasson sem kom öflugur inn. Hann skoraði 7 mörk. Darri Aronsson og Atli Már Bárusson voru báðir með 4 mörk. 

Hjá Focsani voru það Bogdan Catalin Rata og Filip Marjanovic sem voru atkvæðamestir með 5 mörk. 

Hvað gekk illa?

Það var rosalegt andleysi yfir Haukunum í 45 mínútur. Það virtist vera stress í sóknarleiknum þeirra og leiddi það til klaufalegra mistaka. Varnarleikurinn var fínn. Haukarnir voru ólíkir sér og voru bara þreyttir.

Hvað gerist næst?

Focsana eru komnir áfram í Evrópubikarnum en Haukarnir dottnir út. 

Aron Kristjánsson: Við vorum að skjóta illa á þennan markmann

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka var svekktur eftir leikinn í dag.Vísir: Vilhelm

„Ég er bara svekktur. Ég hafði góða tilfinniningu fyrir leikinn og mér fannst við eiga góða möguleika að fara áfram. Þetta er reynt lið, klókir leikmenn og við vorum ekki að spila nægilega vel fyrstu þrjú korterin. Það er ekki fyrr en þegar það 10-15 mínútur eru eftir að leiknum, þar sem að kveiknar á okkur,“ sagði Aron Kristjánsson svekktur eftir að Haukar duttu út úr Evrópubikarnum í dag. 

„Við vorum að skjóta illa á þennan markmann lengi framan af leik. Við vorum að skjóta á fyrsta tempói hvað eftir annað og það var frekar þreytandi. Við sýndum góða baráttu í lokin og við vorum mjög nálægt því að klára. Við fáum þarna strangar tvær mínútur í lokin, það stóð tæpt í lokin þrátt fyrir að vera ekki nægilega beittir í þrjú korter í leiknum.“

Sóknarleikur Hauka var ansi slakur og einkenndist af ótímabærum skotum sem voru annaðhvort varin eða enduðu yfir. 

„Mér fannst við byrja frekar linir varnarlega í hjálparvörninni en svo lagaðist það. Sóknarlega áttum við í miklum erfiðleikum allan leikinn og hann var að verja vel frá okkur utan að velli. Við erum að skjóta mikið á fyrsta tempói á hann, hann var bara mættur í hornin. Svo fannst mér þeir koma tilfinningunum út úr líkamanum í lokin og þá fóru þeir að taka áhættur. Þá fór þetta að virka betur, við vorum aðeins að ofhugsa þetta í byrjun.“

Aðspurður um framhaldið vill Aron safna vopnum og ná sínum mönnum inn þar sem að meiðslalisti Hauka lengist nánast með hverjum leiknum. 

„Við erum í smá vandræðum með svona meiðsli og höfuðhögg. Við erum að lenda í þriðja höfuðhögginu núna á mjög stuttum tíma, þar sem menn eru að detta út. Nú er bara að reyna safna vopnum og klára þessa tvo leiki sem eru eftir fyrir jól.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira