Handbolti

Gum­mers­bach á­fram á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson átti flottan leik í kvöld.
Elliði Snær Viðarsson átti flottan leik í kvöld. EPA-EFE/URS FLUEELER

Íslendingalið Gummersbach trónir sem fyrr á toppi þýsku B-deildarinnar í handbolta þökk sé öruggum sigri á Bietigheim í kvöld, lokatölur 32-25. Anton Rúnarsson og félagar í Emsdetten unnu einnig öruggan sigur á meðan Íslendingalið Aue tapaði sínum leik.

Gummersbach vann þægilegan sjö marka sigur, 32-25, í kvöld. Eyjamennirnir Elliði Snær Vignisson og Hákon Daði Styrmisson áttu góðan leik í liði heimamanna en saman skoruðu þeir sjö af 32 mörkum liðsins. Elliði Snær endaði leikinn með fjögur mörk á meðan Hákon Daði skoraði þrjú mörk.

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar hafa nú unnið 12 af fyrstu 14 leikjum sínum í deildinni og tróna á toppnum með 24 stig, er það fjórum stigum meira en Nordhorn sem situr í öðru sæti deildarinnar.

Anton Rúnarsson skoraði eitt mark í stórsigri Emsdetten á Rostock, lokatölur 28-19. Emsdetten er með 12 stig í 9. sæti. Þá tapaði Aue með fjögurra marka mun fyrir Grosswallstadt á útivelli, lokatölur 26-22.

Arnar Birkir Hálfdánarson skoraði þrjú mörk í liði Aue á meðan Sveinbjörn Pétursson varði 12 skot í marki liðsins. Aue með átta stig í þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Í Svíþjóð skoraði Bjarni Ófeigur Valdimarsson þrjú mörk í tveggja marka sigri Skövde á Ystads, lokatölur 31-29. Skövde hefur þar með jafnað topplið Kristianstad að stigum ásamt því að eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×