Körfubolti

Curry snöggreiddist og kláraði leikinn með sýningu: „Hef ekki séð hann reiðari“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry var mjög ósáttur með að fá ekki villu þegar það var greinilega brotið á honum. Hann náði að beisla orkuna í réttan farveg og gerði út um leikinn með þremur þristum á stuttum tíma.
Stephen Curry var mjög ósáttur með að fá ekki villu þegar það var greinilega brotið á honum. Hann náði að beisla orkuna í réttan farveg og gerði út um leikinn með þremur þristum á stuttum tíma. AP/Ashley Landis

Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors héldu sigurgöngu sinni áfram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. LeBron James var góður í sigri Los Angeles Lakers á móti sama liði og allt varð vitlaust í leik á dögunum.

Stephen Curry skoraði 33 stig í 105-90 sigri Golden State Warriors á Los Angeles Clippers en ellefu af þessum stigum komu eftir að hann fékk tæknivillu þegar 9:08 mínútur voru eftir af leiknum.

Warriors liðið var þarna að vinan sinn áttunda leik í röð og sinni átjánda sigur í tuttugu leikjum á tímabilinu.

„Það var margt skrýtið sem var búið að safnast upp hjá mér og endaði með því að mér fannst ég átti að fá villu á þá. Þetta kveikti í mér og liðinu. Eftir þetta þá var tími til að beina orkunni minni í að koma boltanum í körfuna,“ sagði Stephen Curry. Auk 33 stiga þá var hann einnig með sex stolna bolta, sex stoðsendingar og fimm fráköst

„Ég hef ekki séð hann reiðari og það var greinilega brotið á honum. Þegar hann veit að það var brotið á honum en ekkert var dæmt þá kemur keppnismaðurinn upp í honum og hann missti aðeins stjórn á sér. Það kveikir líka í honum eins og það gerði þarna,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors.

Golden State var 79-70 yfir þegar atvikið varð en þeir unnu næstu fimm mínútur 21-7 og Curry setti niður þrjá þrista á þeim tíma. Eftir það voru úrslitin í leiknum svo gott sem ráðin.

Otto Porter Jr. var með 18 stig og 10 fráköst en Jordan Poole skoraði 17 stig. Paul George skoraði 30 stig fyrir Los Angeles Clippers.

LeBron James skoraði 33 stig og gaf 9 stoðsendingar þegar Los Angeles Lakers vann 110-106 sigur á Detroit Pistons. Lakers var með þrettán stiga forskot fyrir lokaleikhlutann en var næstum því búið að missa frá sér enn einn leikinn með því að tapa fjórða leikhlutanum með níu stigum.

James var rekinn út úr húsi þegar hann mætti Detriot liðinu á dögunum eftir að hafa gefið Isaiah Stewart líklegast slysahögg. Það blæddi vel úr Isaiah Stewart sem gjörsamlega trompaðist eins og frægt varð. James fór í eins leik bann en Stewart í tveggja leikja bann. Isaiah Stewart var með 5 stig og 6 fráköst í þessum leik.

Russell Westbrook var með 25 stig, 6 fráköst og 9 stoðsendingar og Anthony Davis skoraði 24 stig og tók 10 fráköst. Jerami Grant skoraði 32 stig fyrir Detriot liðið.

  • Úrslitin í NBA deildinni í nótt:
  • Los Angeles Clippers - Golden State Warriors 90-105
  • Los Angeles Lakers - Detroit Pistons 110-106
  • Indiana Pacers - Milwaukee Bucks 100-118
  • Toronto Raptors - Boston Celtics 97-109
  • Memphis Grizzlies - Sacramento Kings 128-101
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×