Skoðun

Allt sem þú vissir ekki um sóknar­gjöld

Siggeir F. Ævarsson skrifar

Í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Siðmenntar fæ ég mjög reglulega sömu spurningarnar aftur og aftur um sóknargjöld og eðli þeirra. Þá rekst ég einnig ítrekað á sömu mýturnar um þau í umræðunni. Nú þegar 1. desember er handan við hornið, uppgjörsdagur sóknargjalda, datt mér í hug að reyna að tækla þessar spurningar og mýtur allar í eitt skipti fyrir öll.

Staðreyndir málsins eru ekkert sérstaklega flóknar en eiga það til að skolast töluvert til. Hér á eftir fylgja nokkrir punktar til að kjarna málið í sem allra stystu máli:

  • Sóknargjöld eru ekki félagsgjöld. Sóknargjöld eru einfaldlega framlög úr ríkissjóði, sem allir skattgreiðendur greiða, óháð trúfélagsaðild og óháð tekjum.
  • Háskólinn fær ekki sóknargjöld þeirra sem standa utan trúfélaga. Því fyrirkomulagi var breytt árið 2009. Þetta er sennilega lífsseigasta mýtan í þessari umræðu.
  • Sóknargjöld eru ekki innheimt sérstaklega. Það er enginn reitur á álagningarseðlinum þínum sem heitir „sóknargjöld“, líkt og t.a.m. „Útvarpsgjald“ eða „Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra“.
  • Fyrir þá sem standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga reiknast einfaldlega engin sóknargjöld.
  • Þó þú standir utan trúfélaga greiðir þú samt jafn mikið í skatt og áður og greiðir í raun fyrir sóknargjöldin í gegnum skattkerfið.
  • Félögin sem fá sóknargjöld í sinn hlut ráða engu um upphæð þeirra. Hún er alfarið ákveðin af Alþingi.
  • Sóknargjöld greiða ekki laun presta þjóðkirkjunnar. Ríkið greiðir þau sérstaklega en þjóðkirkjan fær tæpa 4 milljarða í framlög frá ríkinu, óháð sóknargjöldum, í krafti kirkjujarðasamkomulagsins svokallaða.
  • Hver og einn einstaklingur ræður hvert ríkið greiðir fyrir hann sóknargjöld. Hægt er að breyta því vali hvenær sem er á vefsíðu Þjóðskrár.
  • Hér áður fyrr voru allir skráðir sjálfkrafa í sama trúfélag og mæður þeirra. Stór hluti þjóðarinnar er því skráður í trú- eða lífsskoðunarfélag án þess að hafa nokkurn tímann verið spurður hvort þau hafi einhvern áhuga á að tilheyra þessum félögum.

Sóknargjaldakerfið eins og það er í dag er augljóslega tímaskekkja og arfur frá þeirri tíð þegar allir tilheyrðu þjóðkirkjunni en innheimta sóknargjalda var sóknunum erfið. Trú- og lífsskoðunarfélög landsins ættu einfaldlega að sjá sjálf um að innheimta sín félagsgjöld sjálf og á þann hátt sem þeim hentar best.

Raunveruleikinn er aftur á móti sá að þetta er kerfið og lagaumhverfið sem ríkið hefur skapað félögunum og á meðan það er við lýði hvet ég landsmenn alla til að taka meðvitaða ákvörðun um það hvert ríkið greiðir þeirra sóknargjöld. Það er hægt að athuga málið á vefsíðu Þjóðskrár, www.skra.is, en skráningin eins og hún stendur 1. desember næstkomandi ræður því hvert þín sóknargjöld renna 2022.

Höfundur er framkvæmdastjóri Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.