Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 28-32 | Góður seinni hálfleikur skilaði ÍBV sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Kárason skoraði sjö mörk fyrir ÍBV í Garðabænum.
Rúnar Kárason skoraði sjö mörk fyrir ÍBV í Garðabænum. vísir/vilhelm

ÍBV jafnaði Val að stigum í 2. sæti Olís-deildar karla í handbolta með sigri á Stjörnunni, 28-32, í Garðabænum í kvöld. Stjörnumenn voru einu marki yfir í hálfleik, 16-15, en Eyjamenn voru mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik sem þeir unnu, 17-12.

Þetta var síðasti leikurinn í 2. umferð Olís-deildarinnar. Hann átti upphaflega að fara fram 22. september en var frestað vegna veðurs. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum.

Rúnar Kárason var markahæstur í jöfnu liði ÍBV með sjö mörk. Tólf leikmenn liðsins komust á blað í leiknum. Hafþór Vignisson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Sverrir Eyjólfsson sex.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og var með frumkvæðið lengst af fyrri hálfleiks. Vörn Eyjamanna var engin fyrirstaða fyrir sókn Stjörnumanna sem skoruðu að vild í upphafi leiks. Arnór Freyr Stefánsson byrjaði svo ágætlega í marki Stjörnunnar og heimamenn voru með fín tök á leiknum.

Eyjamönnum óx ásmegin eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og þeir komust í fyrsta sinn yfir, 12-13, þegar Dánjal Ragnarsson skoraði eftir hraðaupphlaup. Stjarnan endaði fyrri hálfleikinn hins vegar betur, skoraði fjögur af síðustu sex mörkum hans og leiddi í hálfleik, 16-15.

Liðin héldust í hendur framan af seinni hálfleik en smám saman náði ÍBV undirtökunum. Vörn gestanna efldist og Björn Viðar Björnsson átti góðan kafla í markinu. Stjarnan átti í vandræðum í sókninni og breytingar Patreks Jóhannessonar, þjálfara liðsins, skiluðu sér ekki. Þá var vörn Garðbæinga hriplek og markvarslan afar takmörkuð.

ÍBV þurfti að hafa miklu minna fyrir sínum mörkum og fékk framlag úr mörgum áttum. Stjarnan reyndi og reyndi en náði aldrei nógu góðum takti í vörnina til að geta komið til baka.

Gestirnir úr Eyjum héldu Garðbæingum í seilingarfjarlægð og unnu á endanum fjögurra marka sigur, 28-32.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjamenn hertu vörnina í seinni hálfleik og fækkuðu mistökunum í sókninni. Þá vóg markvarsla Björns Viðars þungt. ÍBV skoraði líka hvorki fleiri né færri en tólf mörk eftir hraðaupphlaup eða með skotum í tómt markið. Á meðan skoraði Stjarnan aðeins þrjú hraðaupphlaupsmörk.

Hverjir stóðu upp úr?

Margir leikmenn ÍBV léku vel í kvöld. Rúnar skoraði grimmt, Björn Viðar varði vel á kafla í seinni hálfleik og þá komu Sveinn Jose Rivera og Theodór Sigurbjörnsson mjög sterkir inn í lið Eyjamanna. Hinn ungi Andrés Marel Sigurðsson stóð einnig fyrir sínu og skoraði þrjú mörk úr vinstra horninu.

Sverrir átti mjög flottan leik á línunni hjá Stjörnunni og nýtti öll sex skotin sín. Hafþór bar þungar byrðar í sókninni og átti að mestu góðan leik, þrátt fyrir nokkur slæm mistök.

Hvað gekk illa?

Vörn Stjörnunnar var ágæt í fyrri hálfleik en afleit í þeim seinni. Þá mæddi alltof mikið á Hafþóri í sókninni og meðreiðasveinar hans eins og Gunnar Steinn Jónsson náðu sér ekki á strik. Þá var markvörslu Stjörnunnar ábótavant eins og svo oft í vetur.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leiki í 10. umferð Olís-deildarinnar á sunnudaginn. Stjarnan fær Fram í heimsókn á meðan ÍBV sækir Gróttu heim.

Patrekur: Getur heldur ekki horft á liðið skora tvö mörk á tíu mínútum

Patrekur Jóhannesson hefði viljað sjá Stjörnumennina sína spila betur í seinni hálfleik gegn ÍBV.vísir/daníel

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var mun sáttari með fyrri hálfleikinn en þann seinni gegn ÍBV í kvöld.

„Við byrjuðum í 5-1 vörn með Hrannar [Braga Eyjólfsson] fyrir framan. Við höfðum ekki mikinn tíma til að æfa það en mér fannst það ganga mjög vel,“ sagði Patrekur eftir leik.

„Í seinni hálfleik duttum við niður á hælana og það vantaði grunnatriðin sem þurfa að vera til staðar í handbolta. Að hreyfa sig aðeins meira og sýna útgeislun. Við vorum alltof of flatir í seinni hálfleik. Svo lentum við líka í vandræðum í sókninni. Hún var ekki nógu góð og við fleygðum boltanum í hendurnar á þeim.“

ÍBV skoraði tólf mörk eftir hraðaupphlaup eða í tómt mark Stjörnunnar í leiknum. Stjörnumenn spiluðu með sjö sóknarmenn á kafla í seinni hálfleik en án mikil árangurs.

„Það gekk ekkert upp. Við komust ekki í gegn og þá þarf maður að prófa. Auðvitað er þetta áhætta en maður getur heldur ekki horft á liðið skorað tvö mörk á tíu mínútum eins og þetta var hjá okkur. Ég stend og fell með því. Í nokkrum leikjum í vetur höfum við spilað sjö gegn sex mjög vel en það gekk ekki upp í dag,“ sagði Patrekur. „Þetta var jafn leikur en Eyjamennirnir voru sterkari í seinni hálfleik.“

Markvarsla Stjörnunnar var ekki uppi á marga fiska í kvöld eins og svo oft áður í vetur. Þrátt fyrir það hefur Patrekur ekki áhyggjur af henni.

„Nei, mér fannst Arnór [Freyr Stefánsson] fínn í fyrri hálfleik þegar vörnin vann vel. Í seinni hálfleik fékk ÍBV opin færi. Ég hef engar áhyggjur af markvörslunni. Ég er með þrjá virkilega góða markverði,“ sagði Patrekur að lokum.

Erlingur: Þeir sem komu inn á settu mark sitt á leikinn

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var sáttur með að fara með tvö stig aftur heim til Eyja.vísir/vilhelm

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með hvernig hans menn spiluðu í seinni hálfleik í sigrinum á Stjörnunni í kvöld.

„Varnarleikurinn var aðeins þéttari. Við náðum aðeins að loka í vörninni, fengum nokkur hraðaupphlaup og slitum okkur aðeins frá þeim. Það er kannski það sem gerði það að verkum að við náðum forystunni,“ sagði Erlingur eftir leik.

ÍBV fékk framlag úr mörgum áttum í leiknum en alls tólf leikmenn liðsins skoruðu í kvöld.

„Þeir sem komu inn á settu mark sitt á leikinn. Það er engin spurning og virkaði ágætlega,“ sagði Erlingur.

Fram til þessa á tímabilinu hafa Eyjamenn fengið drjúgan tíma milli leikja. Því var ekki að skipta að þessu sinni því þeir spiluðu síðast á sunnudaginn.

„Heilt yfir var þetta frekar hægur leikur. Það er kannski ekkert skrítið. Þetta er fyrsti leikurinn sem við leikum án þess að fá 1-2 vikna hlé. Það voru þrír dagar milli leikja og kannski var verkefnið fyrir okkur að gíra okkur upp í leik með svona stuttum fyrirvara,“ sagði Erlingur.

„Við koxuðum aðeins á því fannst mér og vorum ekki alveg klárir í fyrri hálfleik. En Stjarnan gerði svakalega vel. Þeir eru klókir, spila langar sóknir, eru með líkamlega sterka leikmenn, finna línuna og við þurftum að leggja okkur hundrað prósent fram.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira