Umfjöllun og viðtöl: HK - Stjarnan 23-25| Stjarnan marði nýliða HK

Andri Már Eggertsson skrifar
Vísir/Elín Björg

Stjarnan endaði tveggja leikja taphrinu sína í Kórnum með tveggja marka sigri á HK 23-25. Hrannar Bragi Eyjólfsson skoraði tvö síðustu mörk leiksins og sá til þess að stigin tvö færu í Garðabæinn.

Stjarnan hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir leik dagsins. Sóknarleikur Stjörnunnar var langt frá því að geisla af sjálfstrausti í upphafi leiks. Gunnar Steinn Jónsson skoraði fyrsta mark Stjörnunnar eftir átta mínútna leik.

HK byrjaði leikinn töluvert betur en gestirnir úr Garðabæ. HK skoraði fjögur fyrstu mörk leiksins og tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé í stöðunni 5-1 eftir tæplega tíu mínútna leik.

Stjarnan jafnaði leikinn 8-8 þegar tæplega fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Sóknarleikur beggja liða var afar slakur í fyrri hálfleik. HK skoraði aðeins tvö mörk á þrettán mínútna kafla. HK tapaði fullt af boltum og skotin mjög óákveðin.

Staðan var jöfn í hálfleik 10-10. Sóknarleikur beggja liða í fyrri hálfleik verður seint sýndur sem kennsluefni fyrir efnilega handboltaleikmenn.

HK tók frumkvæðið í seinni hálfleik og komst tveimur mörkum yfir 14-12 eftir 35 mínútna leik. Stjarnan svaraði með þremur mörkum í röð. 

Þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé. Stjarnan skoraði strax þrjú mörk gegn einu og þá tók Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, leikhlé tæplega fjórum mínútum seinna. 

Endasprettur leiksins var æsispennandi en reynsla Stjörnunnar kom betur í ljós og skoraði Hrannar Bragi Eyjólfsson tvö síðustu mörk leiksins.

Stjarnan vann tveggja marka sigur 23-25.

Af hverju vann Stjarnan 

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Stjarnan vann leikinn á smáatriðunum. HK tapaði þremur boltum meira en Stjarnan.

Arnór Freyr Stefánsson, markmaður Stjörnunnar, varði 14 skot á meðan Sigurjón Guðmundsson, markmaður HK, varði 10 skot. 

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Freyr Stefánsson, markmaður Stjörnunnar, stóð vaktina vel í markinu. Arnór Freyr varði 14 skot og má telja nokkur á afar mikilvægum augnablikum í leiknum.

Hrannar Bragi Eyjólfsson skoraði 4 mörk úr 5 skotum. Hrannar Bragi reyndist HK-ingum erfiður undir lok leiks þar sem hann skoraði tvö síðustu mörk leiksins. Hrannar var einnig duglegur að skapa færi fyrir liðsfélaga sína.

Hvað gekk illa?

Sóknarlega voru HK-ingar sjálfum sér verstir á köflum. Mörg skot HK voru óhnitmiðuð og enduðu himinn hátt yfir markið. HK tapaði 11 boltum og þó nokkrir eftir klaufaleg mistök.

Hafþór Már Vignisson var langt frá sínum besta leik í dag. Hafþór skoraði eitt mark úr sjö skotum. 

Hvað gerist næst?

Stjarnan mætir ÍBV næsta miðvikudag í TM-höllinni klukkan 18:00.

Mánudaginn 29. nóvember er nýliðaslagur í Víkinni þar sem Víkingur og HK mætast klukkan 19:30. Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Patrekur: Dagur Gautason bættist á sjúkralistann 

Patrekur Jóhannesson var ánægður með sigur dagsins

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sigur dagsins.

„Það var lítið sem skildi liðin að. Í fyrri hálfleik fórum við afar illa með mörg færi. Vörnin okkar var betri eftir að Jón Ásgeir Eyjólfsson kom inn á. Þetta var frábær sigur,“ sagði Patrekur eftir leik.

Stjarnan skoraði sitt fyrsta mark þegar leikurinn var átta mínútna gamall. Patrekur taldi tap í síðustu tveimur leikjum ekki vera ástæðuna fyrir þessari byrjun. 

„Við erum með bullandi sjálfstraust. Við vorum hægir til að byrja með. Vörnin hjá HK var góð eins og ég átti von á.“

Það er mikið um meiðsli í herbúðum Stjörnunnar og bættist Dagur Gautason á sjúkralistann eftir átök í leiknum.

„Björgvin Hólmgeirsson er meiddur í hnénu og fékk högg í leiknum gegn Gróttu svo hann gat ekki spilað í dag.“

„Dagur Gautason meiddist í leiknum eftir að það var brotið á honum í horninu. Þetta er slæmt fyrir Dag sem er mikill nagli,“ sagði Patrekur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.