Innlent

Tillögu um neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur vísað til velferðarráðs

Samúel Karl Ólason skrifar
Tillagan felur í sér að koma á fót nýju neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur í formi herbergjagistingar og yrði starfrækt með skaðaminnkandi nálgun.
Tillagan felur í sér að koma á fót nýju neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur í formi herbergjagistingar og yrði starfrækt með skaðaminnkandi nálgun. Vísir/Vilhelm

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins um neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur til velferðarráðs. Tillagan felur í sér að koma á fót nýju neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur í formi herbergjagistingar og yrði starfrækt með skaðaminnkandi nálgun.

Í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum segir að athvarfið yrði sambærilegt því sem komið var á í Skipholti sem neyðarhúsnæði vegna Covid-19. Því hefur verið lokað.

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Ég fagna því auðvitað að meirihlutinn í borgarstjórn hafi ekki fellt málið heldur vísað því til meðferðar Velferðarráðs, hvar ég á sæti. Þó ekki sé um fullnaðarsigur að ræða þá er fyrsta orrustan unnin og ég mun fylgja málinu fast eftir í velferðarráði, enda þolir það enga bið eðli málsins samkvæmt,“ er haft eftir Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, fyrsta varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og flytjanda tillögunnar í áðurnefndri tilkynningu.

Ragnhildur segir þennan hóp kvenna hafa beðið eftir úrræðinu og þær séu á götunni í kuldanum sem fylgi þessum árstíma. Ragnhildur segist bjartsýn á að unnið verði úr tillögunni eins og Sjálfstæðismenn hafi lagt upp með en það muni taka lengri tíma en hún vonaðist til.

„Neyðarhúsið í Skipholti hafði þá sérstöðu umfram önnur hefðbundin neyðarskýli að vera herbergjagisting. Þar voru konur með sitt eigið herbergi þar sem öryggi þeirra var tryggt og þær gátu haft eigur sínar í friði. Þá höfðu þær einnig sér baðherbergi. Neyðarhúsið var jafnframt opið allan sólarhringinn vegna aðstæðna og því höfðu konurnar meiri stjórn á því hvernig þær ráðstöfuðu degi sínum en ella,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þar segir einnig að aðsókn í úrræðið hafi verið mikil og það hafi verið upplifun starfsfólk að fyrirkomulagið reyndist þeim sem notuðu sér þjónustuna betur en hefðbundið neyðarskýli.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.