Körfubolti

Slæmur þriðji leikhluti varð Jóni Axeli og félögum að falli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Axel í leik með Phoenix Suns í sumardeild NBA körfuboltans.
Jón Axel í leik með Phoenix Suns í sumardeild NBA körfuboltans. Phoenix Suns

Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í Fortitudo Bologna þurftu að sætta sig við 14 stiga tap er liðið tók á móti Venezia í ítalska körfuboltanum í dag, 77-91.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að hafa foyrstuna. Mestur varð munurinn fimm stig þegar Jón Axel og félagar komust í 19-14, en staðan var jöfn, 24-24, að loknum fyrsta leikhluta.

Svipaða sögu er að segja af öðrum leikhluta, en gestirnir í Bologna náðu mest sjö stiga forskoti. Jón Axel og félagar komu til baka og jöfnuðu metin, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 40-42, Venezia í vil.

Gestirnir keyrðu svo gjörsamlega yfir Jón Axel og félaga í þriðja leikhluta. Eftir að heimamenn höfðu skorað fyrstu fjögur stig seinni hálfleiksins kom 13-4 kafli hjá Venezia, en liðið náði mest 19 stiga forskoti. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan 53-69.

Jón Axel og félagar náðu svo að kroppa aðeins í forskot gestanna í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í sex stig. Gestirnir tóku þá við sér á ný og unnu að lokum öruggan 14 stiga sigur, 77-91.

Jón Axel skoraði tvö stig fyrir Fortitudo Bologna og tók auk þess fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu. Liðið situr í 14. sæti deildarinnar af 16 og hefur fengið fjögur stig í átta leikjum. Venezia situr í sjöunda sæti með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×