Körfubolti

Baldur Þór: Það þarf að vera með breidd í þessari deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls var ánægður með sigur sinna manna í kvöld.
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls var ánægður með sigur sinna manna í kvöld. Vísir/Daníel

Tindastóll vann góðan sigur á spræku liði Vestra á heimavelli sínum í kvöld, lokatölur 92-81. Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var ánægður með sigur sinna manna strax eftir leik.

Vestri byrjaði leikinn betur og leiddu með 11 stigum eftir fyrsta leikhluta. Baldur var ánægður með viðbrögð síns liðs. 

„Þeir komu sterkir til leiks og hitta eiginlega úr öllum skotum í fyrsta leikhluta. Svo náum við stoppum allar 30 mínúturnar eftir það.“

Tindastóll fékk 27 stig frá bekknum sínum í kvöld, þar af 18 stig frá Pétri Rúnari Birgissyni, leikmanni Tindastóls. Baldur Þór var ánægður með það framlag og bætti við að „það þarf að vera með breidd í þessari deild. Toppliðin í gegn um árin eru vanalega með 7-8 háklassa spilara þannig að það þurfa líka að vera góðir menn á bekknum.“

Að lokum sagðist Baldur Þór vera fyrst og fremst ánægður með að sigra leikinn.

„Þetta er einn af þessum leikjum sem að maður fer inn í og vill sigur alveg sama hvernig hann kemur og það er ánægjulegt að ná að klára það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×