Körfubolti

Pippen heldur áfram að dissa Jordan: „Flensa? Í alvöru“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Jordan og Scottie Pippen mynduðu eitt besta tvíeyki í sögu NBA-deildarinnar.
Michael Jordan og Scottie Pippen mynduðu eitt besta tvíeyki í sögu NBA-deildarinnar. getty/Jo

Scottie Pippen heldur áfram að skjóta á sinn gamla liðsfélaga, Michael Jordan, í nýlegu viðtali gerði hann lítið úr flensuleiknum svokallaða.

Ævisaga Pippens, Unguarded, er nýkomin út og hann er á fullu að kynna hana. Í bókinni skýtur hann nokkuð föstum skotum að Jordan. Pippen var til að mynda ósáttur við þá mynd sem var dregin upp af honum í þáttaröðinni The Last Dance sem fjallar um tímabilið 1997-98 hjá Chicago Bulls.

Pippen sagði að Jordan væri baðaður í dýrðarljóma í þáttunum á meðan lítið væri gert úr samherjum hans.

Í viðtali við SiriusXM NBA Radio beindi Pippen sjónum sínum að flensuleiknum svokallaða, leik fimm í einvígi Chicago og Utah Jazz í úrslitum NBA 1997. Jordan spilaði leikinn með flensu, eða matareitrun, en skoraði samt 38 stig, þar á meðal sigurkörfuna. Með sigrinum komst Chicago í 3-2 í einvígi liðanna.

Pippen finnst full mikið gert úr flensuleiknum og segist oft hafa spilað illa haldinn af bakverkjum.

„Ég spyr þig: hvort er auðveldara að spila með bakmeiðsli en flensu?“ spurði Pippen útvarpsmanninn sem svaraði því að oft væri talað um að bakmeiðsli væru þau erfiðustu.

„Já, ég sé ekki marga bakverkjaleiki en ég sé flensuleiki. Flensa? Í alvöru,“ sagði Pippen.

Sjálfur var hann meiddur í baki á þessum tíma og segir að hann hefði ekki getað spilað oddaleikinn ef Utah hefði jafnað í 3-3.

„Nei, ég var nánast búinn að vera. Ég átti í erfiðleikum og á enn í erfiðleikum vegna þess. En ég hefði ekki spilað í leik sjö,“ sagði Pippen.

Þeir Jordan urðu sex sinnum NBA-meistarar með Chicago og voru saman í sigurliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992, Draumaliðinu svokallaða. 


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×