Erlent

Mýs vísa á að nor­rænir sæ­farar hafi fyrstir numið Asór­eyjar

Þorgils Jónsson skrifar
Vísindamenn hafa rekið ættir músa á Asóreyjum til Norðurlanda.
Vísindamenn hafa rekið ættir músa á Asóreyjum til Norðurlanda. Mynd/Samsett

Nýjar rannsóknir á arfgerð músa á Asóreyjum benda til þess að norrænir sæfarar hafi verið fyrstu mennirnir til að nema land á þessum afskekkta eyjaklasa í miðju Atlantshafi, hundruðum ára áður en Portúgalar komu þar árið 1427.

Guardian segir frá og vísar í grein í fræðiritinu Proceedings of the National Academy of Sciences segir að leifar í jarðlögum bendi til þess að þar hafi fólk brennt skóglendi til að rýma fyrir ræktun beitarlands á árabilinu 700 til 850.

Þessir landnemar komu sennilega frá Norðurlöndunum að því er ráða má af músastofni eyjanna, sem er af sama uppruna og fyrirfinnst á Orkneyjum, Mön, Írlandi, Íslandi og Grænlandi.

Mýsnar áttu hins vegar lítið skylt við mýs frá Portúgal.

„Þessar mýs voru augljóslega ferðalangar sem dreifðust með víkingum á ferðum þeirra um Atlantshafið“, hefur Guardian eftir höfundi greinarinnar, þróunarlíffræðingnum Jeremy Searle frá Háskólanum í Cornell. 

„Til Íslands, Grænlands og einnig Asóreyja og Madeira, að því er við höldum. Það sýnir bara hversu víða víkingar fóru.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×