Handbolti

Ómar hélt sigur­göngu Mag­deburg gangandi | Leikur Melsun­gen flautaður af

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon tryggði Magdeburg sigurinn í dag.
Ómar Ingi Magnússon tryggði Magdeburg sigurinn í dag. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat / POOL

Fjórir leikir í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta fóru fram fyrr í dag og það voru Íslendingar í eldlínunni í þeim öllum. Magdeburg hefur nú unnið alla níu leiki sína, en leikur Hamburg og Melsungen var flautaður af um miðjan fyrri hálfleik eftir að stuðningsmaður slasaðist í stúkunni.

Elvar Örn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson leika með Melsungen og þeir höfðu þriggja marka forskot þegar leikurinn var flautaður af, 11-8.

Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson þurftu að sætta sig við svekkjandi eins marks tap er lið þeirra, Stuttgart, heimsótti Wetzlar. Viggó skoraði fjögur mörk í liði Stuttgart en það dugði ekki til og liðið tapaði 35-34. Stuttgart situr í 16. sæti deildarinnar með fjögur stig, þrem stigum minna en Wetzlar sem situr í 11. sæti.

Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn er hann tryggði Magdeburg eins marks sigur gegn Erlangen, 28-27. Ómar skoraði sjö mörk í leiknum og lagði upp önnur sex, hann tryggði Magdeburg sigurinn með marki af vítalínunni þegar leiktíminn var runninn út. 

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg, en liðið er enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.

Þá þurftu Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo að sætta sig við svekkjandi eins marks tap gegn Füchse Berlin, 28-27, þar sem sigurmarkið kom þegar aðeins sex sekúndur voru til leiksloka. Bjarki skoraði fjögur mörk fyrir Lemgo sem situr í níunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×