Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 36-33 | Stjarnan á toppinn eftir sigur í toppslagnum

Björgvin Helgi Hannesson skrifar
Stjarnan er eina liðið í Olís-deild karla sem ekki hefur tapað leik.
Stjarnan er eina liðið í Olís-deild karla sem ekki hefur tapað leik. Vísir/Elín Björg

Í kvöld mættust Stjarnan og Valur í svokölluðum toppslag í TM höllinni. Stjarnan leiddi leikinn mest allan leikinn og átti sigurinn skilið. Lokatölur 36-33 Stjörnumönnum í vil.

Leikurinn byrjaði mjög jafn en á áttundu mínútu var staðan 3-3. Stjörnumenn tóku völdin í sínar hendur eftir það og komust í 9-5 þegar 14 mínútur voru búnar. Heimamenn héldu uppteknum hætti út hálfleikinn en hálfleiksstaðan var 19-12 fyrir heimamönnum.

Hafþór Már átti mjög góðan fyrri hálfleik en hann hélt uppteknum hætti í þeim seinni með því að skora fyrstu tvö mörkin. Eftir 50 mínútna leik var ennþá 7 marka munur á liðunum en þá datt Vals liðið í gírinn og skoruðu næstu 4 mörk leiksins. Staðan allt í einu orðin 31-28. Stjörnumenn kláruðu leikinn hinsvegar verðskuldað. Lokatölur 36-33 fyrir Stjörnunni.

Afhverju vann Stjarnan?

Stjarnan mætti einfaldlega bara betur undirbúið í þennan leik en Valur sá ekki til sólar í fyrri hálfleik. Stuðningurinn sem heimamenn fengu gerði einnig helling fyrir þá og það sást inn á vellinum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hægri vængur Stjörnumanna var gjörsamlega magnaður í leiknum. Starri Friðriksson með 9 mörk ur 11 skotum og Hafþór Már með 8 mörk og óteljandi stoðsendingar.

Vals megin var Benedikt Gunnar Óskarsson atkvæðamestur með 8 mörk, Tumi Steinn næstur á eftir honum með 5 mörk.

Hvað gekk illa?

Lítið var um markvörslu í leiknum en allir fimm markmenn skýrslunar fengu að spreyta sig í dag. Vals liðið spilaði ekki nægilega góða vörn allan leikinn en þeir fóru bæði í 6-0 og 5-1 vörn.

Hvað gerist næst?

Smá hlé verður hjá liðunum eftir þennan leik en Stjarnan á næst útileik 10.nóvember við Gróttu. Valur fær hinsvegar FH-inga í heimsókn og verður sá leikur í beinni á Stöð2Sport kl 19:45.

Patrekur: Skiptir máli að vera efstur eftir 22 umferðir

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega ánægður með sigurinn í toppslag deildarinnar.Vísir/Elín Björg

Patrekur Jóhannesson var hrikalega ánægður með sína menn og stigin tvö í kvöld.

“Ég er bara ánægður með sigurinn á Val. Við gerðum mjög vel sérstaklega í fyrri hálfleik og bara margt sem við lögðum upp með sem gekk upp. Eins og ég segi, mjög ánægður.

Það var eins og allt gengi upp sóknarlega hjá Stjörnunni í kvöld en þeir skoruðu 36 mörk.

“Sóknarlega vorum við klókir, sérstaklega í fyrri hálfleik en við vorum að skjóta mjög vel á Bjögga. Vörnin var líka mjög þétt hjá okkur og Arnór flottur í markinu.”

Mikið var um tvær mínútur í leik kvöldsins

“Skrýtnir dómar sem þarf náttúrulega að kíkja á en það var nú svo sem báðu megin. Maður finnur alltaf einhverja dóma sem maður er ekki sammála. Þetta eru alvöru karlmenn að berjast, þetta var enginn ruddaskapur en það var fast tekið á mönnum. Mér finnst að menn eigi að spila þannig án þess að fara í einhver rugl brot.”

Stjarnan er með fullt hús stiga eftir 5 leiki, er markmiðið að vinna deildina?

“Það er bara næsti leikur. Auðvitað skiptir máli að sækja stig í byrjun móts en á endanum snýst þetta um hvernig liðið stendur sig eftir 22 leiki í mars, apríl, maí en auðvitað erum við sáttir með þessa byrjun.

Fjórir Akureyringar eru í liði Stjörnunar

“Þetta eru frábærir drengir sem eru búnir að spila vel og aðlagast. Þeir gefa liðinu mjög mikið.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.