Handbolti

Fyrsta tap Arons og félaga | Kielce lyfti sér upp að hlið Barcelona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar í Álaborg þurftu að sætta sig við þriggja marka tap í kvöld.
Aron Pálmarsson og félagar í Álaborg þurftu að sætta sig við þriggja marka tap í kvöld. EPA-EFE/RENE SCHUETZE

Aron Pálmarsson og félagar hans í danska liðinu Álaborg þurftu að sætta sig við sitt fyrsta tap í Meistaradeildinni á tímabilinu er liðið heimsótti ungverska liðið Pick Szeged í A-riðili, 31-28. Á sama tíma unnu Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í Vive Kielce nokkuð öruggan fimm marka sigur gegn PSG, 38-33, og er liðið nú á toppi B-riðils ásamt Barcelona.

Heimamenn í Pick Szeged höfðu yfirhöndina frá upphafi leiks og um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan orðin 9-5. Aron og félagar náðu ekki að brúa bilið fyrir hálfleik og staðan var 17-13 þegar gengið var til búningsherbergja.

Álaborg skoraði fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins og náði því að minnka muninn niður í eitt mark. Heimamenn náðu þó fljótt góðu forskoti aftur, áður en Aron og félagar minnkuðu muninn á ný. Þeim tókst þó aldrei að jafna leikinn og Ungverjarnir unnu góðan þriggja marka sigur, 31-28.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Álaborg sem er enn á toppi A-riðils með átta stig eftir fimm leiki, tveimur stigum meira en Pick Szeged sem situr í fjórða sæti.

Svipaða sögu er að segja af leik Kielce og PSG, en eftir jafnar fyrstu mínútur komust heimamenn í Kielce í 9-5 um miðbik fyrri hálfleiks. Liðið hélt forystu sinni fram að hléi, en ataðan var 19-14 er gengið var til búningsherbergja.

Sigvaldi og félagar héldu forystu sinni allan seinni hálfleikinn, og sigurinn var í raun aldrei í hættu. Lokatölur urðu 38-33, en Sigvaldi skoraði þrjú mörk fyrir Kielce. Pólsku meistararnir eru nú jafnir Barcelona og Telekom Veszprem í efsta sæti B-riðils með átta stig eftir fimm leiki. PSG er þreumr stigum á eftir þeim í fjórða sæti riðilsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.