Innlent

Telur mansal falinn vanda á Íslandi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, telur að fleiri mansalsmál líti dagsins ljós með aukinni umræðu. 
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, telur að fleiri mansalsmál líti dagsins ljós með aukinni umræðu.  Vísir/Vilhelm

Þrettán tilfelli komu upp á síðasta ári þar sem grunur var um mansal, og tvö tilfelli þar sem um var að ræða smygl á fólki. Þetta kom fram í erindi teymisstjóra Bjarkarhlíðar á ráðstefnu félagsráðgjafa í dag. Hún telur að um sé að ræða falinn vanda og grunar að í raun séu mun fleiri tilfelli sem varða mansal.

Tilraunaverkefni Bjarkarhlíðar um samhæfingarmiðstöð um mansal var komið á fót í fyrra og var í sumar framlengt um eitt ár.

Ragna Björk Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, flutti erindi um málið á málþingi um ofbeldi sem Félagsráðgjafafélag Íslands og Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands standa fyrir í dag. Í erindinu kom fram að í heildina hafi 15 mál komið inn á þeirra borð.

„Á þessu ári, fyrsta árið sem verkefnið var í gangi, þá voru fimmtán mál, þar af voru tvö mál sem við tókum inn í þetta sem vörðuðu smygl á fólki,“ segir Ragna en smygl á fólki flokkast vanalega ekki sem hefðbundið mansal, þó það geti oft tengst.

„Þannig það voru svona þrettán mál sem mátti fella undir mansal og þar af var sem sagt staðfestur grunur í ellefu málum,“ segir Ragna enn fremur.

Þrjú mál vörðuðu kynlífsmansal

Vinnumansal og kynlífsmansal voru til skoðunar þar sem í báðum flokkum er um hagnýtingu að ræða. Þegar kemur að vinnumansali er fólki oft skipað að vinna án þess að fá laun og aðbúnaður er ekki mannsæmandi. Kynlífsmansal snýr síðan að því að selja aðgang að konum fyrir kynlíf en þrjú mál sem komu á borð Bjarkarhlíðar vörðuðu kynlífsmansal.

Flest málin enduðu tiltölulega vel.

„Svolítið stór hluti af þessum málum var þannig að þegar að grunur kom upp þá flúðu viðkomandi aðilar aðstæður og þetta var yfirleitt í vinnumansalinu. En í öðrum málum þar var góð útkoma, fólki var vanalega hjálpað úr aðstæðunum og fengu tækifæri til þess að skapa sér öruggt líf,“ segir Ragna.

Aðspurð um þróunina þegar kemur að mansali segir Ragna það erfitt að segja, ekki síst þar sem Covid faraldurinn gæti haft áhrif á fjölda mála. Þá sé það sjaldgæft að þolendur biðji sjálfir um aðstoð. Yfirleitt séu það aðrir sem gruna mansal og reyna að aðstoða manneskjuna sem er beitt óréttlæti.

Að sögn Rögnu er því ekki ólíklegt að málin séu í raun mun fleiri.

„Ég myndi halda að þetta væri falinn vandi. Með meiri umræðu og fræðslu þá væru þetta fleiri mál.“

Hægt er að fylgjast með málþinginu í beinni á Vísi. 
Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.