Körfubolti

Melo sýndi gamla takta þegar Lakers vann loksins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carmelo Anthony skoraði 28 stig í sigri Los Angeles Lakers á Memphis Grizzlies.
Carmelo Anthony skoraði 28 stig í sigri Los Angeles Lakers á Memphis Grizzlies. getty/Harry How

Carmelo Anthony sýndi að enn lifir í gömlum glæðum þegar Los Angeles Lakers vann sinn fyrsta leik í NBA-deildinni tímabilinu í nótt.

Anthony skoraði 28 stig þegar Lakers lagði Memphis Grizzlies að velli, 121-118. Hann er nú kominn upp í 9. sætið á listanum yfir stigahæstu leikmenn í sögu NBA.

Anthony Davis skoraði 22 stig fyrir Lakers, LeBron James nítján og Russell Westbrook var með þrettán stig og þrettán stoðsendingar. Ja Morant skoraði fjörutíu stig og gaf tíu stoðsendingar fyrir Memphis en klikkaði á vítaskoti á ögurstundu undir lok leiks.

Charlotte Hornets gerði sér lítið fyrir og vann Brooklyn Nets á útivelli, 95-111. Charlotte hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa og liðið hefur aldrei byrjað tímabil jafn vel.

Miles Bridges skoraði 32 stig fyrir Charlotte og LaMelo Ball átján. Kevin Durant skoraði 38 stig fyrir Brooklyn en það dugði skammt.

Líkt og Charlotte hefur Golden State Warriors unnið alla þrjá leiki sína á tímabilinu. Í nótt sigraði Golden State Sacramento Kings, 107-119, í Kaliforníuslag.

Stephen Curry skoraði 27 stig fyrir Golden State og gaf tíu stoðsendingar og Jordan Poole skoraði 22 stig.

Úrslitin í nótt

  • LA Lakers 121-118 Memphis
  • Brooklyn 95-111 Charlotte
  • Sacramento 107-119 Golden State
  • NY Knicks 104-110 Orlando
  • Houston 97-107 Boston
  • Oklahoma 103-115 Philadelphia

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×