Sex stjórnarandstöðuflokkar af öllu pólitíska litrófinu, allt frá vinstri sósíalistum til fyrrverandi hægriöfgamanna úr Jobbik-flokknum, stóðu saman að forvalinu til að velja einn frambjóðanda til þess að skáka Orban sem hefur verið við völd í meira en áratug.
Fleiri en 650.000 manns greiddu atkvæði í forvlainu sem fór fram í tveimur umferðum. Peter Marki-Zay, íhaldssamur og óflokksbundinn bæjarstjóri smábæjar, stóð uppi sem sigurvegari með 57% atkvæða.
Hann bar sigurorð af Klöru Dobrev, frambjóðanda vinstrisinnaða Lýðræðilega bandalagsins. Hún er varaforseti Evrópuþingsins og eiginkona Ferencs Gyurcsany, fyrrverandi forsætisráðherra. Dobrev lýsti yfir stuðningi við Marki-Zay eftir að úrslitin voru ljós.
Marki-Zay er 49 ára gamall kaþólikki og sjö barna faðir. Kosningabarátta hans gekk út á að hann ætti meiri möguleika gegn Orban þar sem hann sækti að honum frá hægri, að sögn Washington Post.
„Við viljum nýtt, hreinna, heiðarlegt Ungverjaland, ekki bara skipta úr Orban eða flokki hans,“ sagði Marki-Zay við sigurreifa stuðningsmenn sína í Búdapest í gær.
Fjarað hefur undan lýðræði í Ungverjalandi í stjórnartíð Orban. Hann hefur tangarhald á fjölmiðlum og dómstólum í landinu. Forsætisráðherrann hefur rekið stefnu sem er sérstaklega fjandsamleg innflytjendum, hælisleitendum og hinsegin fólki.

Velti Fidesz óvænt úr sessi í sveitabæ
Stjórnarandstaðan er talin munu eiga á brattann að sækja í þingkosningunum sem fara fram í apríl. Sameinuð eygi hún þó besta möguleika sinn til að fella Orban um árabil. Orban hefur lengi notið góðs af því hversu tvístruð andstaðan gegn honum hefur verið. Skoðanakannanir nú benda til þess að lítill munur sé á fylgi Fidesz-flokks Orban og stjórnarandstöðubandalagsins.
Sameiginlegt framboð hefur þegar skilað stjórnarandstöðunni árangri í sveitarstjórnarkosningum sem fóru fram árið 2019. Þá vann hún meirihluta umdæma í Búdapest og fleiri borgum. Þetta verður í fyrsta skipti sem stjórnrandstaðan býður sameiginlega fram í þingkosningum.
„Við getum aðeins unnið saman. Enginn getur brotið samstöðu stjórnarandstöðunnar á bak aftur,“ sagði Marki-Zay stuðningsfólki sínu í gær.
Marki-Zay vakti fyrst verulega athygli þegar hann vann bæjarstjórnarkosningar í bænum Hodmezovasarhely sem hafði verið talið óárennilegt vígi Fidesz-flokksins árið 2018, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
„Við viljum losna við stóru strákana sem leggja allan bekkinn í einelti,“ sagði Marki-Zay þegar hann vann bæjarstjórastólinn.
Fidesz-flokkurinn gefur lítið fyrir sameiningu stjórnarandstöðunnar. Í yfirlýsingu sagði flokkurinn að Marki-Zay hefði gert samkomulag við vinstrisinna til að koma stjórnarandstöðunni aftur til valda og hækka skatta.