Körfubolti

Bjarni Magnússon: „Veit ekki hvort það var fyrir neðan þeirra virðingu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarni Magnússon var ósáttur við dómara kvöldsins, en tekur jákvæða punkta úr leiknum.
Bjarni Magnússon var ósáttur við dómara kvöldsins, en tekur jákvæða punkta úr leiknum. vísir/vilhelm

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var ánægður með baráttuna í sínum leikmönnum og segist taka jákvæða punkta út úr leiknum, þrátt fyrir 43 stiga tap gegn Villeunueve í Evrópubikarnum.

„Ég tek bara jákvætt úr þessum leik. Fyrsti leikur á þessu sviði á móti sterkum andstæðingum. Auðvitað hefðum við getað betur hér og þar en þetta er bara fyrsti leikur og fyrsti leikur hjá nánast öllum í liðinu á þessu sviði. Nú vitum við hvert við erum komin. Núna er sviðskrekkurinn vonandi farinn og við reynum að gera betur næst,“ sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, eftir leikinn gegn Villeunueve.

„Ég var ánægður með baráttuna, vorum að slást við stórar og sterkar stelpur inn í teig og ég var líka ánægður með hvernig við enduðum leikinn, vorum ekki að hengja haus, kláruðum þetta sterkt og fengum góðar körfur á lokakaflanum.“

Haukar voru lengi með 26 stig skoruð í leiknum en náðu að bæta við fimmtán stigum fyrir lok leiksins.

„Þetta var orðin þreytt tala á töfluna, þessi 26 stig. Það var gott að geta bætt aðeins í undir lokin.“

Bjarni var spurður út í dómgæsluna og hann var ekki sáttur við frammistöðu dómarans. Haiden Palmer var hent út úr húsi þegar hún fékk tæknivillu en hún hafði áður fengið óíþróttamannslega villu.

„Ég heyrði ekki af hverju hún fékk þessa tæknivillu og mér fannst óíþróttamannslega villan á mjög tæpu svæði. Ég var mjög ósáttur með dómarana í kvöld. Mér fannst þeir gefa gestunum of mikla virðingu og okkur ekki neina. Mér fannst þetta tríó sem við fengum hérna heim... ég veit ekki hvort það var fyrir neðan þeirra virðingu að koma til Íslands í Evrópukeppni en þau voru alllavega ekki bestu leikmennirnir á sviðinu í dag.“

Haukar mæta Tarbles eftir sex daga í Frakklandi. Bjarni var að lokum spurður út í það verkefni.

„Mér líst mjög vel á það. Það eru fimm leikir eftir, þetta er bara ævintýri og allir í klúbbnum eru spenntir að taka þátt í þessu,“ sagði Bjarni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.