Handbolti

„Ástin blómstraði“ inn á vellinum í Olís-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Rafn Eiðsson hjá KA og Dagur Arnarsson hjá ÍBV tókust vel á í leiknum og Seinni bylgjan hafði mjög gaman af því.
Einar Rafn Eiðsson hjá KA og Dagur Arnarsson hjá ÍBV tókust vel á í leiknum og Seinni bylgjan hafði mjög gaman af því. Skjámynd/S2 Sport

Seinni bylgjan tók sérstaklega fyrir samskipti tveggja leikmanna í leik ÍBV og KA í síðustu umferð Olís-deildar karla í handbolta. Leikmennirnir eru Einar Rafn Eiðsson hjá KA og Dagur Arnarsson hjá ÍBV.

„Það eru tveir góðir vinir í þessum liðum sem eru reyndar ekki saman í liði en það eru Dagur Arnarsson og Einar Rafn Eiðsson. Þetta er svona ástarsamband sem við fylgdumst svolítið með í þessum leik,“ spurði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

Um leið var sýnd myndband af því þegar Einar Rafn og Dagur voru að faðma hvorn annan og undir var spiluð rómantísk tónlist.

„Þetta er bara fallegt samband. Það er mjög gaman að sjá hvernig þeir njóta nærveru hvors annars,“ sagði Stefán Árni í léttum tón.

Klippa: Seinni bylgjan: Ástin blómstrar

„Þetta er búið að vera gegnum gangandi í mörg ár. Það er dásamlegt að horfa á þetta,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Það er alltaf gaman þegar Einar Rafn kemur út í Eyjar því hann fær alltaf góðar móttökur í Vestmannaeyjum,“ sagði Ásgeir Örn.

Einar Rafn Eiðsson lék áður með FH og þar fékk hann oft að heyra það líka frá stuðningsmönnum Eyjamanna þar sem mörgum blöskraði.

Uppskera þessara leikmanna í leiknum var að Dagur skoraði sex mörk, gaf fjórar stoðsendingar og fagnaði sigri. Einar Rafn var aftur á móti með fimm mörk og sex stoðsendingar en ÍBV vann leikinn með fjórum mörkum, 35-31.

Það má sjá faðmlögin og „rómantíska myndbandið“ hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×