Handbolti

Þjálfari Gróttu eftir grát­legt tap: „Djöfull langar mig að blóta“

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Arnar Daði var súr og svekktur í kvöld.
Arnar Daði var súr og svekktur í kvöld. vísir/hulda margrét

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var vægast sagt ósáttur með eins marks tap sinna manna gegn Fram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Leiknum lauk með 24-23 sigri gestanna.

„Ég er vonsvikinn. Við vorum ekki nægilega góðir til þess að vinna þennan leik. Ég veit ekki hvort hann Einar Jónsson sé sammála mér en mér fannst Framararnir heldur ekki spes. En það er ekkert spurt að því. Við voruð bara ekki nægilega góðir til að vinna,“ sagði Arnar Daði eftir leik og hélt svo áfram.

„Djöfull langar mig að blóta. Við vorum bara alls ekki nægilega góðir. Þetta er eiginlega bara ekki hægt. Við getum ekki verið að spila á sama leveli og andstæðingarnir og svo vonast eftir að vinna þetta í lokin. Við hefðum átt að vera búin að klára þennan leik fyrir löngu en við höfðum ekki gæðin í það.“

„Mér fannst spilamennskan ekki nægilega góð. Ég nenni ekki að vera að segja eitthvað um hvað við hefðum átt að gera. Við áttum bara að vinna Fram í dag. Ég set standard á leikmenn sem ég er með í liðinu. Við erum ekkert með þetta kjallaralið, við erum með hörkuleikmenn en við þurfum bara að fara að spila betri handbolta. Þetta er ekki hægt hérna leik eftir leik.“

„Við stöndum í Val, við stöndum í FH, við stöndum í Fram. Það skiptir engu djöfulsins máli hvað liðin heita. Við mætum alltaf í leik en svo klárum við þetta ekki þegar uppi er staðið. Ég nenni ekki að vera að tuða yfir dómgæslunni. Við getum það ekki þegar við erum ekki skömminni skárri en ég veit allavega ekki hverjir voru bestu leikmenn vallarins í dag.“

„Ég átti nokkur tiltöl við eftirlitsdómarann í leiknum. Mér finnst Sissi (Kristján halldórsson) nú ágætur. Og ég spyr hann oft í leiknum hvort þetta hafi verið réttur dómur eða ekki og ég veit ekki betur heldur en að hann hafi oftar en ekki verið sammála mér og ósammála hans teymi.“

„Ég er svo pirraður að ég gæti gert eitthvað sem ég á ekki að vera að gera þannig ég ætla nú ekki að tjá mig of mikið. Ég veit ekki hvort þessi þáttur sem verður sýndur (Seinni bylgjan) hafi einhvern áhuga á að skoða einhverja dóma en skoðið þessar tvær mínútur á Birgi Stein í lokin.“

„Er ekki brotið á Igor þarna í lokin? Undirhandarskotið sem tekið er undir lokin þegar Rógvi fær hann í fótinn. Þetta er endalaust af dómum. Undir lok seinni hálfleiks kemur hendin upp eftir aðeins 40 sekúndur en þeir eru manni færri í fyrri hálfleik þar sem þeir fá að spila í mínútu áður en höndin kemur upp. Þetta er bara endalaust kjaftæði sem er ekki hægt að lifa með að eilífu,“ sagði Arnar Daði að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.