Körfubolti

Logi á sínu 25. tímabili: 25 er góð tala

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Logi Gunnarsson var eðlilega sáttur með sigur kvöldsins.
Logi Gunnarsson var eðlilega sáttur með sigur kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík byrjar tímabilið í Subway-deildinni frábærlega. Liðið vann 25 stiga sigur á heimavelli gegn Íslandsmeisturunum frá Þorlákshöfn. Logi Gunnarsson tók það á sig þjálfaraviðtalið eftir leik þar sem Benedikt Guðmundsson tók út leikbann.

„Nei það er ekki hægt að byrja betur. Við vorum staðráðnir í því að mæta þeim í kvöld og spila vörn. Við gerðum það og héldum þeim á mjög fáum stigum eiginlega allan tímann. Þetta er flott byrjun, vorum að mæta Íslandsmeisturunum sem unnu okkur frekar örugglega um daginn. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að byrja svona.“

Logi segir að Njarðvíkingar hafi verið heppnir að Þórsarar hafi ekki hitt úr opnum skotum en hann var heilt yfir ánægur með vörnina.

Fyrir leik sagði hann að þetta væri hans 25. tímabil í meistaraflokki. Er þá ekki viðeigandi að byrja á því að vinna með 25 stigum? 

„Já, er það ekki bara. Það er góð tala.“

Logi skoraði úr sínu fyrsta þriggja stiga skoti í kvöld. 

„Ég hef nokkrum sinnum byrjað á því a setja fyrsta skotið mitt á tímabilinu. Örugglega svona 15 af þessum 25 skiptum.“

Hann segir að liðið þurfi að gera betur þegar kemur að sóknarfráköstum andstæðinganna en bendir á að liðið eigi eftir að fá Maciek inn í liðið og að liðið sé frekar lágvaxið. 

Fotios, Dedrick og Nico áttu allir góðan leik. Hversu góðir eru þeir?

„Þetta eru frábærir leikmenn. Þú getur átt fullt af góðum leikmönnum en þessir eru svo miklir liðsspilarar, kunna leikinn út í gegn og eru góðir í að stjórna hraðanum í leiknum. Þeir eru frábærir leikmenn á öllum sviðum leiksins,“ sagði Logi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×