Skoðun

Eftir Co­vid-19, verk­efni og á­skoranir

Þórkatla Aðalsteinsdóttir skrifar

Það er skrýtið hvað við getum vanist ótrúlegustu aðstæðum og tileinkað okkur nýja siði og venjur ef við neyðumst til þess. Það þarf ekki að fjölyrða um það hvað Covid lagði á okkur síðast liðið rúmt eitt og hálft ár. Ýmislegt sem áður var okkur svo fjarlægt er orðinn okkar veruleiki (s.s. grímur og að lúta höfði í kveðjuskyni í stað þess að takast í hendur). Við erum sem sagt orðin austurlenskari í háttum en við vorum!

Núna höfum við snúið til baka á vinnustaðinn eftir að hafa unnið mikið heima, verið fyrir framan skjáinn í samskiptum og þægindaramminn hefur minnkað mikið þetta síðasta eina og hálfa ár. Svo mætum við til vinnu og finnum að við erum óörugg. Sum hafa verið í sóttvarnarhólfum í vinnunni og lært að líta á þá sem eru í öðrum hólfum sem ósnertanlega fjarlæga vinnufélaga sem er bara hægt að hafa samskipti við gegnum tölvuna. Við spyrjum okkur um það hvað má, hvar línan liggur? Má spjalla, má hittast við kaffivélina? Má borða saman og hversu þétt má sitja? Og ef einhver meldar sig veikan leggst óöryggið yfir staðinn. Má spyrja hvað er að? Má spyrja hvort viðkomandi hafi farið í test eða erum við þá að ala á smitskömm eða stunda persónunjósnir?

Hvernig höldum við í okkar ábyrgu smitvarnir en endurnýjum samt langþráð samstarf við góða vinnufélaga? Og hvernig eflum við liðsandann á ný og sköpum skemmtilegar stundir í hópnum? Allt eru þetta snúnar og erfiðar spurningar og sitt sýnist hverjum. Stundum er stutt í viðbrögð sem byggja á kvíða og óöryggi og skapa svo súrt andrúmsloft og samstarfið líður fyrir það. Allar breytingar eru flóknar og þessar eru það líka. Við gerum fullt af mistökum, skömmum okkur fyrir þau og stundum vantar upp á umburðarlyndið bæði gagnvart okkur sjálfum og líka gagnvart öðrum.

Samskipti eru lykillinn, við þurfum að koma okkur saman um línu sem við getum flest fylgt en líka sýna því skilning ef einhver treystir sér ekki til að fylgja fjöldanum. Heilsukvíði, kvíði vegna heilsulausra aðstendenda og fleira tengt því getur svo sannarlega orðið til þess að einhverjir starfsmenn halda í þrönga þægindahringinn og vilja fara sér hægt í að stækka hann og stíga út. En orð eru til alls fyrst. Leyfum okkur að ræða þessi atriði, ræða okkar eigið óöryggi og spyrja spurninga. Því fyrr náum við vopnum okkar á ný reynslunni ríkari.

Höfundur er sálfræðingur, stofnandi og einn eigenda Lífs og sálar sálfræði- og ráðgjafarstofu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.