Handbolti

Bjarki Már skoraði 16 er fjögur Íslendingalið fóru áfram í þýska bikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson var algjörlega óstöðvandi í kvöld.
Bjarki Már Elísson var algjörlega óstöðvandi í kvöld. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Sex leikir fóru fram í þýsku bikarkeppninni í handbolta í kvöld, en Íslendingar voru í eldlínunni í fjórum þeirra. Öll fjögur Íslendingaliðin unnu nokkuð örugga sigra og eru því komin áfram í 16-liða úrslit.

Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo heimsóttu Dormagen, en Lemgo var það Íslendingalið sem vann hvað naumastan sigur.

Bjarki og félagar voru einu marki undir í hálfleik, 17-16, en tóku yfirhöndina í seinni hálfleik og unnu að lokum þriggja marka sigur, 31-28. Bjarki Már var sjóðandi heitur í liði Lemgo, en hann skoraði 16 mörk fyrir gestina.

Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen höfðu þriggja marka forskot í hálfleik þegar að liðið heimsótti Leipzig. Ljónin bættu svo um betur í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur, 31-24.

Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer áttu ekki í neinum vandræðum með Varel Altjuhrden, en liðið fór með tíu marka forystu inn í hálfleikinn.

Arnór og félagar bættu enn frekar í í seinni hálfleik og unnu að lokum sannfærandi 18 marka sigur, 36-18.

Að lokum unnu Andri Már Rúnarsson og félagar hans í Stuttgart átta marka sigur gegn Rimpar, 34-26, þrátt fyrir það að vera marki undir í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×