Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Selfoss 31-22| Haukar rúlluðu yfir Selfyssinga

Andri Már Eggertsson skrifar
visir-img
vísir/Elín Björg

Haukar rúlluðu yfir Selfyssinga sem voru afar andlausir og litu út fyrir að hafa takmarkaðan áhuga á að veita Haukum mótspyrnu.

Yfirburðir Hauka voru það miklir að það var orðið ljóst í hálfleik hvert stigin tvö færu. Haukar unnu á endanum níu marka sigur 31-22.

Það var jafnræði með liðunum í blábyrjun en Haukar náðu tveggja marka forskoti heldur snemma sem átti bara eftir að aukast.

Sóknarleikur Selfoss var afar dapur í fyrri hálfleik. Flest allar sóknir gestanna voru áhugalausar og afar fyrirsjáanlegar. Selfoss skoraði aðeins fimm mörk á síðustu nítján mínútum fyrri hálfleiks.

Það liðu tæplega ellefu mínútur frá því Selfoss gerði sitt áttunda mark í leiknum og þar til þeir gerðu það níunda.

Þráinn Orri Jónsson, línumaður Hauka, byrjaði á bekknum. Þráinn kom inn á í leiknum og átti þar góða innkomu sem skilaði honum þremur mörkum.

Sóknarleikur Hauka var mjög góður og dreifðust sextán mörk Hauka í fyrri hálfleik á níu leikmenn og aðeins tveir voru ekki með fullkomna skotnýtingu. Staðan í hálfleik var 16-10.

Haukar byggðu ofan á góðan fyrri hálfleik með enn betri seinni hálfleik. Gestirnir gáfu Haukum aldrei leik í seinni hálfleik og var aðeins spurning hversu stór sigur Hauka yrði.

Þegar tæplega fimm mínútur voru eftir af leiknum voru heimamenn tólf mörkum yfir 30-18. Bæði lið nýttu síðustu mínútur leiksins til að leyfa sem flestum að spila og fá mínútur. Leikurinn endaði með níu marka sigri Hauka 31-22. 

Af hverju unnu Haukar?

Vörn og markvarsla Hauka var lykillinn að sigri. Góð vörn Hauka gerði það að verkum að Selfoss skoraði aðeins fimm mörk á síðustu nítján mínútum fyrri hálfleiks. 

Í seinni hálfleik keyrðu Haukar yfir Selfyssingana sem höfðu takmarkaðan áhuga á að hlaupa á sama hraða og Haukar. 

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Rafn Eðvarðsson, markmaður Hauka, átti góðan leik í kvöld. Aron var með 50 prósent markvörslu og skoraði eitt mark. 

Mörk Hauka dreifðust á marga leikmenn. Ellefu leikmenn skoruðu og voru fimm sem klikkuðu ekki á skoti. 

Hvað gekk illa?

Leikmenn Selfoss lögðu sig einfaldlega ekki fram í kvöld. Það var á köflum átakanlegt að fylgjast með þeirra leik. Barátta liðsins var í sögulegu lágmarki. 

Hvað gerist næst?

Á sunnudag mætast Selfoss og Afturelding í Set-höllinni klukkan 19:30 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Sólarhring síðar mætast Haukar og Stjarnan á Ásvöllum klukkan 19:40 í beinni á Stöð 2 Sport.

Aron: Vorum með góð tök á leiknum 

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var ánægður með sigur kvöldsins.

„Mér fannst við með góð tök á leiknum. Við vorum tólf mörkum yfir á tímabili. Síðustu mínúturnar fóru til yngri manna og var ég ánægður með leikinn,“ sagði Aron Kristjánsson. 

Aron var ánægður með varnarleik Hauka og nafna sinn í markinu.

„Aron var að verja mjög vel. Varnarleikurinn var þéttur, við færðum okkur vel og áttum góð svör við þeirra leikkerfum.“

Aron var einnig ánægður með sóknarleik Hauka og dreifðist markaskorun liðsins á marga leikmenn.

„Sóknarleikur liðsins var góður í fyrri hálfleik. Hraðarupphlaupin voru frábær, við náðum góðum hraða upp völlinn og boltinn gekk hratt milli manna,“ sagði Aron Kristjánsson.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira