Körfubolti

Njarðvík og Haukum spáð sigri í Subway deildunum í körfubolta í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Subway-deild karla hefst á fimmtudaginn.
Subway-deild karla hefst á fimmtudaginn. vísir/sigurjón

Benedikt Guðmundsson gerir Njarðvík að Íslandsmeisturum á fyrsta ári sínu í Ljónagryfjunni og Helena Sverrisdóttir kemur með Íslandsbikarinn heim á Ásvelli ef marka má spá félaganna sjálfra.

Subway deildirnar í körfubolta voru kynntar í dag á árlegum kynningarfundi fyrir leiktíðina í úrvalsdeildum karla og kvenna en hann var haldinn á Grand Hótel.

Stærsta frétt fundarins var að venju spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna í deildunum um lokaniðuröðun.

Það kom hins vegar líka fram að Körfuknattleikssamband Íslands og rekstraraðili Subway veitingastaðanna á Íslandi hafa gert með sér samning um að úrvalsdeildir karla og kvenna verða kenndar við Subway næstu árin.

Haukum var spáð öruggum sigri í Subway deild kvenna en næstu lið eru Valur og Fjölnir. Skallagrímur fellur úr deildinni. Nýliðar Njarðvíkur rétt missa af úrslitakeppnina því fjórða liðið inn í hana er Keflavík. ÍR kemur upp í 1. deildina í staðinn.

Haukarkonur hafa unnið tvo titla á síðustu dögum auk þess að komast áfram í Evrópukeppni fyrst íslenska kvennaliða í körfunni. Liðið fékk til sín bestu körfuboltakonu landsins í Helenu Sverrisdóttur en hún hjálpað Valskonum að vinna titilinn á síðustu leiktíð.

Njarðvík er spáð sigri í Subway deild karla en næstir verða Keflvíkingar. Stjarnan, Valur og Tindastóll eru ekki langt á eftir og það má því búast við spennandi keppni.

Njarðvíkingar urðu bikarmeistarar á dögunum en töpuðu síðan á móti Þór úr Þorlákshöfn í Meistarakeppni KKÍ um helgina. Það breytti því samt ekki að á sama og Njarðvík er spáð efsta sæti þá eiga ríkjandi Íslandsmeistarar hjá Þór úr Þorlákshöfn bara að enda í áttunda og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina.

Nýliðar Breiðabliks og Vestra fara aftur niður í 1. deildina samkvæmt spánni en upp í staðinn koma Haukar og Höttur sem féllu bæði síðasta vor.

 • SUBWAY DEILD KVENNA - Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna
 • 1. Haukar 284 stig
 • 2. Valur 204
 • 3. Fjölnir 200
 • 4. Keflavík 136
 • 5. Njarðvík 90
 • 6. Breiðablik 80
 • 7. Grindavík 53
 • 8. Skallagrímur 33
 • -
 • SUBWAY DEILD KARLA- Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna
 • 1. Njarðvík 398 stig
 • 2. Keflavík 367
 • 3. Stjarnan 329
 • 4. Valur 323
 • 5. Tindastóll 312
 • 6. KR 235
 • 7. Grindavík 223
 • 8. Þór Þ. 215
 • 9. ÍR 146
 • 10. Þór Ak. 107
 • 11. Breiðablik 102
 • 12. Vestri 51
 • -
 • 1. deild karla- Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna:
 • Haukar 334 stig
 • Höttur 283
 • Sindri 227
 • Álftanes 217
 • Fjölnir 157
 • Skallagrímur 143
 • Selfoss 139
 • Hamar 118
 • Hrunamenn 88
 • ÍA 34
 • -
 • 1. deild kvenna- Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna:
 • ÍR 342 stig
 • KR 298
 • Stjarnan 287
 • Þór Ak. 283
 • Ármann 235
 • Hamar-Þór 155
 • Aþena-UMFK 151
 • Tindastóll 145
 • Snæfell 128
 • Fjölnir b 108
 • Vestri 79Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.