Innlent

Hræið af stærðarinnar hrefnu­tarfi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hræinu verður líklegast sökkt, að sögn sérfræðings hjá Hafrannsóknarstofnun.
Hræinu verður líklegast sökkt, að sögn sérfræðings hjá Hafrannsóknarstofnun. Vísir/Vilhelm

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína niður í fjöru á Álftanesi það sem af er morgni til að virða fyrir sér hvalhræ sem þar liggur. Hræið er af hrefnutarfi en óljóst er hvað varð honum að bana.

Tilkynnt var um að hvalinn hefði rekið á land í gærkvöldi. Þegar fréttastofu bar að garði í morgun var lögregla búin að girða hvalinn af, þar sem hann lá í fjörunni rétt fyrir neðan íbúabyggðina á vestanverðu nesinu, með bandi - en það stoppaði þó ekki áhugasama skólakrakka, sem virtu hræið fyrir sér í miklu návígi. 

Hræið er nokkuð heilt en af því er þó farin að leggja talsverða ýldulykt, sem fannst greinilega þegar staðið var uppi við opið gin hvalsins. 

Sverrir Daníel Halldórsson líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun var mættur ásamt samstarfskonu sinni að taka sýni úr hræinu í morgun.

„Þetta er hrefnutarfur, ég veit svosem lítið enn þá en fullvaxinn allavega,“ segir Gísli.

Er vitað hvað gerðist, af hverju hann er kominn?

„Nei, það er ekki að sjá neitt á honum en gætu verið náttúrulegar orsakir eða árekstur við skip eða eitthvað.“

Ekki sé óalgengt að hrefnur, sem eru almennt einfarar, reki hér á land. Hvalrekinn og afdrif hræsins eru nú kominn í farveg hjá Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, heilbrigðiseftirliti, lögreglu og fleiri aðilum.

„Það fer eftir aðstæðum. Ég reikna með að það verði dregið út,“ segir Gísli.

Og því bara sökkt í sjóinn?

„Já, væntanlega sökkt bara.“


Tengdar fréttir

Skoða hvalinn í fjörunni á Álftanesi

Nokkur fjöldi fólks hefur gert sér ferð í fjöruna á Álftanesi í morgun til að skoða hvalhræ sem liggur þar í fjörunni. Lögreglan hefur sett gulan borða við hvalinn en fólk fer áhyggjulaust að hvalnum, strýkur honum og lyktar.

Hvalreki á Álftanesi

Hval hefur rekið á land á Álftanesi og liggur hræið nú í fjöru. Lögreglu var tilkynnt um dýrið seint í dag og verður það skoðað nánar í fyrramálið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×