Viðskipti innlent

Íslandsbanki spáir stýrivaxtahækkun í næstu viku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Íslandsbanki telur að Seðlabankinn sé kominn í hækkunarfasa þegar kemur að stýrivöxtum.
Íslandsbanki telur að Seðlabankinn sé kominn í hækkunarfasa þegar kemur að stýrivöxtum. Vísir/Vilhelm

Íslandsbanki spáir því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunardegi, sem er á miðvikudaginn í næstu viku, þann 6. október. Gangi spáin eftir verða stýrivextir 1,5 prósent.

„Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur á vaxtaákvörðunardaginn 6. október. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því 1,5% og hafa þá samtals hækkað um 0,75 prósentur frá maíbyrjun,“ segir á vef Íslandsbanka þar sem farið er ítarlega yfir rök með og á móti því að hækka stýrivexti.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósent í ágúst, á síðasta vaxtaákvörðunardegi. Segja hagfræðingar Íslandsbanka að í raun blasi frekari stýrivaxtahækkun við.

„Dregið hefur úr óvissu um framgang Delta-bylgju faraldursins og efnahagsbati virðist kominn á nokkurt skrið. Á sama tíma hefur verðbólga reynst þrálát, skammtíma verðbólguhorfur hafa þokast til verri vegar og verðbólguálag á markaði hefur mjakast upp. 

Í ljósi þess hversu peningastefnunefndinni virðist umhugað um að raunstýrivextir hækki fyrr en síðar í átt að núllpunktinum og þess að tveir nefndarmenn af vildu stíga stærra hækkunarskref í ágúst en raunin varð þótt óvissa væri þá meiri en nú virðist þessi niðurstaða blasa við,“ segir á vef bankans.

Ýmis rök með og á móti en rökin með vegi þyngra

Farið er yfir rök með og á móti stýrivaxtahækkun og segir að ýmsir þættir mæli með stýrivaxtahækkun:

  • Verðbólga enn yfir 4,0% þolmörkum verðbólgumarkmiðsins
  • Hækkun íbúðaverðs talsvert hraðari en hækkun neysluverðlags og launa
  • Innlend eftirspurn hefur tekið myndarlega við sér
  • Væntingar heimila og fyrirtækja benda til áframhaldandi vaxtar í innlendir eftirspurn
  • Skammtíma verðbólguhorfur hafa versnað
  • Verðbólguálag til lengri tíma hefur hækkað

Þó séu nokkrir þættir sem mæli á móti stýrivaxtahækkun:

  • Nokkur óvissa um ríkisstjórnarmyndun
  • Bakslag í ferðaþjónustu mun líklega vara enn um sinn
  • Áhrif vaxtahækkunar í ágúst og lækkunar veðsetningarhlutfalls enn að koma fram á íbúðamarkaði
  • Atvinnuleysi enn talsvert og nokkur slaki í hagkerfinu
  • Langtíma verðbólguvæntingar enn í samræmi við markmið

Telur bankinn að rökin með stýrivaxtahækkun vegi þyngra á metunum við ákvörðun peningastefnunefndar en rökin á móti.

Spá því að Seðlabankinn sé kominn í vaxtahækkunarferli

Þá telur bankinn ljóst af orðum og gerðum peningastefnunefndar að Seðlabankinn sé kominn í vaxtahækkunarferli sem ætlunin sé að halda áfram af nokkrum krafti á komandi misserum, ef ekki verði verulegt bakslag í efnahagsmálum. Sem fyrr segir spáir bankinn hækkun í næstu viku, en mögulegt sé að bankinn staldri við eftir það fram að áramótum, svo haldi hækkanir áfram.

Ásgeir Jónsson er Seðlabankastjóri og formaður PeningastefnunefndarVísir/Vilhelm

„Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að vextir verði hækkaðir á öllum þremur vaxtaákvörðunardögum fyrri árshelmings 2022. Vextirnir verða þar með komnir í 2,5% um svipað leyti og verðbólga nálgast markmið Seðlabankans samkvæmt spá okkar og raunstýrivextir á þann kvarða verða þar með við núllið að ári liðnu. 

Þar eftir hljóðar spáin upp á 0,25 prósentu hækkun á hverjum ársfjórðungi fram á mitt ár 2023. 3,5% stýrivextir eru að mati okkar nærri jafnvægisvöxtum á komandi árum að gefinni verðbólgu í takti við markmið og þokkalegum hagvexti,“ segir í greiningu bankans sem má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Seðlabankinn hækkar stýrivexti

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,25%.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×