Handbolti

FH-ingar í 75 prósent allra leikja í Olís deildinni á tíu daga tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingurinn Jón Bjarni Ólafsson talar við Leonharð Þorgeir Harðarson.
FH-ingurinn Jón Bjarni Ólafsson talar við Leonharð Þorgeir Harðarson. Vísir/Hulda Margrét

FH-ingar spiluðu á Selfossi í gærkvöldi og þeir spila tvo leiki til viðbótar á næstu dögum. Það fer aðeins einn leikur fram á næstu níu dögum þar sem FH er ekki að spila.

Leikur Selfoss og FH í gær var leikur úr fyrstu umferðinni sem var frestað vegna þátttöku Selfyssinga í Evrópukeppninni.

FH-ingar fara síðan til Eyja um helgina og spila þar við ÍBV. Sá leikur er í fimmtu umferð en var færður vegna þátttöku FH-liðsins í Evrópukeppninni á næstunni.

Leikur FH í þriðju umferðinni fer síðan fram fimmtudaginn 7. október og er fyrsti leikur þeirrar umferðar. Restin af þriðju umferðinni fer fram frá laugardeginum 9. október til mánudagsins 11. október.

FH mætir SKA Minsk frá Hvíta Rússlandi. Heimaleikurinn fer fram 16. október og útileikurinn 23. október. FH spilar deildarleik á móti Víkingum í millitíðinni eða miðvikudaginn 13. október.

Þessar tilfærslur á leikjum FH-liðsins þýddu það að liðið tekur þátt í í 75 prósent allra leikja í Olís deildinni á tíu daga tímabili eða frá 28. september til 7. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×