Handbolti

„Þær réðu ekkert við hana“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thea Imani Sturludóttir í leik með Valsliðinu. HK liðið réð ekkert við hana um helgina.
Thea Imani Sturludóttir í leik með Valsliðinu. HK liðið réð ekkert við hana um helgina. Vísir/Hulda Margrét

Valskonan Thea Imani Sturludóttir átti mikið hrós skilið eftir frammistöðu sína á móti HK um helgina og hún fékk það líka frá Seinni bylgjunni.

Thea Imani skoraði níu mörk úr aðeins ellefu skotum og gaf 3 stoðsendingar að auki í 23-17 sigri á HK í Kórnum í 2. umferð Olís deildar kvenna í handbolta. Hún átti því þátt í meirihluta marka Valsliðsins.

„Maður leiksins var algjörlega Thea Imani. Hún var geggjuð í þessum leik. Í seinni hálfleik sérstaklega þá bara reif hún sig í gegn. Hún er frábær skytta,“ sagði Svava Kristín Grétarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar.

Klippa: Seinni bylgjan: Thea Imani fór á kostum á móti HK

„Hún er frábær leikmaður og hún er með geggjuð skot. Hún er með mjög góðar fintur og ég vildi óska þess að hún myndi gera þetta í hverjum einasta leik. Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að leikmenn skori alltaf níu mörk en hún var áræðin og full af sjálfstrausti,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Hún var að tala um það í viðtali eftir leikinn að það væri þessi framliggjandi vörn sem hún dýrkaði að spila á móti,“ sagði Svava Kristín.

„HK-stelpurnar voru að spila eins konar 3-2-1 vörn og sérstaklega í seinni hálfleik þá var hún frábær. Þær réðu ekkert við hana,“ sagði Sunneva Einarsdóttir, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Hún er með sprengikraft. Það er erfitt að eiga við hana og erfitt að mæta henni. Hún er snögg, hún er með stökkkraft og hún getur skotið. Það er bara erfitt að mæta henni,“ sagði Sigurlaug.

Það má sjá umfjöllunina um Theu Imani hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×