Handbolti

Leikmaður Lemgo handtekinn á Íslandi

Henry Birgir Gunnarsson og Birgir Olgeirsson skrifa
Úr leik Vals og Lemgo síðasta þriðjudag.
Úr leik Vals og Lemgo síðasta þriðjudag. vísir/vilhelm

Samkvæmt heimildum Vísis var leikmaður þýska úrvalsdeildarliðsins Lemgo handtekinn hér á landi í morgun vegna gruns um kynferðisbrot.

Lemgo spilaði Evrópuleik gegn Valsmönnum í handbolta á þriðjudaginn. Gærdagurinn var svo skemmtidagur hjá leikmönnum liðsins en liðið kíkti meðal annars á eldgosið í Geldingadölum.

Bjarki Már Elísson og liðsfélagar hans snéru svo til Þýskalands í morgun en einn leikmaður varð eftir.

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að mál hafi ratað inn á borð deildarinnar í nótt sem varðar kynferðisbrot. Ævar segist ekki geta tjáð sig um einstök atriði málsins að öðru leyti en að það sé til rannsóknar. Enn sé ekki búið að taka ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald eða farbann.

Lemgo vann fyrri leikinn gegn Valsmönnum, 26-27, og síðari leikur liðanna fer fram næstkomandi þriðjudag í Lemgo.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.