Handbolti

Þrjú íslensk töp í þýska handboltanum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer töpuðu gegn Hannover-Burgdorf í dag.
Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer töpuðu gegn Hannover-Burgdorf í dag. vísir/hulda margrét

Þrem leikjum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta er lokið í dag. Íslendingar voru í eldlínunni í þeim öllum, en engum þeirra tókst að vinna. 

Mikið jafnræði var með liðinum þegar að Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen heimsóttu Hamburg. Liðin skiptust á að hafa forystuna og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 16-15, Hamburg í vil.

Seinni hálfleikur bauð upp á meira af því sama, en liðin héldu áfram að skiptast á að hafa forystuna. Munurinn varð mestur tvö mörk í seinni hálfleik, þangað til undir lokin þegar Hamburg skoraði sex mörk í röð og breytti stöðunni í 32-27, sem urðu lokatölur leiksins.

Ýmir Örn og félagar hafa unnið einn af fyrstu þrem leikjum tímabilsins og sitja í tólfta sæti með tvö stig.

Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten þurftu að sætta sig við sex marka tap á útivelli gegn Tus N-Lubbecke. 

Heimamenn í Lubbecke tóku forystuna á fyrstu mínútu og litu aldrei um öxl. Daníel og félagar náðu þó að minnka muninn í niður í eitt mark snemma í seinni hálfleik eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hléi, en nær komust þeir ekki og lokatölur urðu 33-27.

Þá þurftu Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer að þola átta marka tap gegn Hannover-Burgdorf. Arnór skoraði tvö mörk í leiknum, en Hannover-Burgdorf hafði frumkvæðið allan leikinn og unnu að lokum 28-20.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.