Handbolti

Viggó fingurbrotinn og frá fram í desember

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viggó Kristjánsson verður væntanlega ekki klár í slaginn á ný fyrr en í desember.
Viggó Kristjánsson verður væntanlega ekki klár í slaginn á ný fyrr en í desember. getty/Tom Weller

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, er fingurbrotinn og verður frá keppni í að minnsta kosti tvo mánuði.

Viggó staðfesti þetta við handbolta.is. „Ég meiddist á æfingu fyrir tveimur dögum. Þetta er glatað svona stuttu fyrir fyrsta leik,“ sagði Seltirningurinn við handbolta.is í gær. Hann brotnaði á þumalfingri vinstri handar.

Stuttgart, lið Viggós, tapaði fyrir Magdeburg, 33-29, í 1. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í gær. Andri Már Rúnarsson var ekki á meðal markaskorara hjá Stuttgart. Ómar Ingi Magnússon var markahæstur á vellinum með níu mörk en Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað hjá Magdeburg.

Viggó er á sínu öðru tímabili hjá Stuttgart. Í fyrra var hann fimmti markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar með 230 mörk. Stuttgart endaði í 14. sæti.

Ljóst er að Viggó verður ekki klár í slaginn á ný fyrr en í desember. Í janúar tekur íslenska landsliðið þátt á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu. Íslendingar eru í riðli með Portúgölum, Hollendingum og Ungverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×