Handbolti

Ómar Ingi hefur markakóngsvörnina vel

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum á sinni fyrstu leiktíð í Þýskalandi og byrjar vel á þeirri annarri.
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum á sinni fyrstu leiktíð í Þýskalandi og byrjar vel á þeirri annarri. Getty/Uwe Anspach

Fjórir leikir voru á dagskrá í úrvalsdeild karla í handbolta í Þýskalandi í kvöld. Fimm Íslendingar voru í eldlínunni þar sem Ómar Ingi Magnússon, markakóngur síðustu leiktíðar, stóð upp úr.

Íslendingaslagur var á dagskrá í kvöld er Magdeburg tók á móti Stuttgart. Leikur liðanna var jafn framan af en heimalið Magdeburgar leiddi 16-15 í hálfleik. Það slitnaði þó á milli í síðari hálfleik þar sem Madgeburg jók forystu sína jafnt og þétt.

Forystan varð mest sex mörk en leiknum lauk með fjögurra marka sigri Magdeburgar, sem var aldrei í hættu. Lokatölur urðu 33-29.

Hægri skyttan Ómar Ingi Magnússon, sem varð markakóngur í Þýskalandi í fyrra, var markahæstur í liði heimamanna með níu mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað hjá Magdeburg. Andri Már Rúnarsson skoraði heldur ekki fyrir Stuttgart en þá var Viggó Kristjánsson ekki í leikmannahópi útiliðsins.

Arnór Þór Gunnarsson var þá í liði Bergischer sem sótti N-Lübbecke heim. Lübbecke varð B-deildarmeistari í fyrra til að tryggja sæti sitt í efstu deild og er með sterkt lið.

Úr varð spennandi leikur þar sem jafnt var, 12-12, í hálfleik, en Bergischer hafði mest komist fjórum mörkum yfir fyrir hléið. Litlu munaði á liðunum framan af síðari hálfleiknum en Bergischer seig fram úr þegar leið á og vann 24-20 útisigur á nýliðunum.

Rhein-Neckar Löwen hóf tímabilið á 28-24 sigri á Hannover-Burgdorf. Löwen leiddi 16-11 í hálfleik og lét forystu sína aldrei af hendi eftir hlé. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.