Körfubolti

Lakers sækir enn einn elli­smellinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
DeAndre Jordan er mættur til Los Angeles.
DeAndre Jordan er mættur til Los Angeles. Jonathan Bachman/Getty Images

Hinn 33 ára gamli DeAndre Jordan hefur samið við Los Angeles Lakers og mun leika með liðinu í NBA-deildinni í körfubolta í vetur.

Lakers heldur áfram að sækja menn á fertugsaldri en áður hafa þeir Russell Westbrook, Carmelo Anthony, Trevor Ariza, Dwight Howard og Rajon Rondo.

DeAndre Jordan leikur í stöðu miðherja og gefur Lakers ákveðna vigt undir körfunni. Mun hann eflaust deila mínútum í „fimmunni“ með D. Howard og Anthony Davis. Með því að sækja Jordan virðist sem dagar Marc Gasol – enn einn leikmaðurinn á fertugsaldri – séu taldir í borg englanna.

Jordan hefur spilað í NBA-deildinni í 13 ár og lék síðast með stjörnuliði Brooklyn Nets. Var hann í byrjunarliði í 43 af þeim 57 leikjum sem hann spilaði með að meðaltali 7,5 stig, 7,5 fráköst og 1,6 stoðsendingu í leik. Þá spilaði hann að meðaltali 21,9 mínútu í leik.

Miðherjinn hefur alls leikið 932 leiki í NBA-deildinni og veigrar sér ekki að leika fyrir erkifjendur. Hann spilaði með Nets eftir að hafa verið á mála hjá New York Knicks og nú er hann mættur til Lakers eftir að hafa leikið með Clippers á árum áður. Þá lék hann einnig með Dallas Mavericks.

Hann er þekktur fyrir að spila góða vörn ásamt því að vera virkilega góður í klefanum. Hann ætti að smellpassa inn í Lakers-lið þar sem meðalaldurinn er í hærra lagi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.